Hugsum Lego í risaverkefnum komandi ára

Í fréttum er stundum talað um innviðaskuld, að hér þurfi að fjárfesta mikið til að styrkja innviði, bæta vegakerfið, byggja orkuver og fleira. Ég veit ekki hvort ég á að vera svartsýnn eða bjartsýnn. Það er jú spennandi að lesa um ný verkefni og maður fyllist vígamóði og vilja til góðra verka. En svo hellist efinn yfir mig þegar ég hugsa um stór og mikil verkefni á undanförnum áratugum sem sum hver hafa lent í skrúfunni, tekið miklu lengri tíma og kostað mun meira en ætlað var. Kvikult eðli risaverkefna er auðvitað ekki séríslenskt vandamál. Góðu fréttirnar eru þær að með réttri hugsun má ná miklu betri árangri, ef menn bara vilja. Auðvitað þarf að styrkja stjórnsýslu til að tryggja góðar ákvarðanir og skynsamlega forgangsröðun opinberra fjármuna. En ég ætla reyndar ekkert að tala um verkefnastjórnsýslu í þessum pistli.

Hver man ekki eftir því úr æskunni að fást við legókubba, róta í bláum grænum og gulum kubbum og búa til mannvirki eða hvað annað sem manni datt í hug? Það var auðvelt að byggja lego hús, jafn auðvelt að taka það í sundur til að byggja annað betra í næstu atrennu. Legó er í eðli sínu einingar sem nýta má til að raungera hugmyndir. Lego er ódýr leið til að prófa sig áfram, frábær leið til að beisla ímyndunaraflið.

Í bókinni, “How big things get done” eftir Bent Flyvbjerg og Dan Gardner sem kom út 2023, er mikið talað um Legó. Höfundarnir halda því fram fullum fetum að ef hugsa megi verkefni út frá smærri einingum séu miklu meiri líkur á að það heppnist og sé skilað hraðar og með lægri tilkostnaði. Á hinn bóginn að þegar verkefni sé hugsað sem ein risastór framkvæmd í heilu lagi sé miklu líklegra að það fari út af sporinu. Þetta er byggt á margra ára rannsóknum Bent Flyvbjerg sem safnaði gögnum um fjöldamörg risastór innviðaverkefni úr öllum heimshornum og byggði upp mikinn gagnagrunn. Verkefnin eru flokkuð niður og þeir tveir verkefnaflokkar sem helst eru í hættu á að fara út af spori eru ólympíuleikar og kjarnorkuver. Og ekki nóg með það, það virðast lítil takmörk á því hve mikið framúrskrið kostnaðar getur orðið. Á hinn bóginn eru aðrir verkefnaflokkar þar sem litlar líkur eru á að verkefni fari yfir kostnaðaráætlun. Framúrkeyrslur – ef þær eiga sér stað – eru jafnan litlar. Þeir verkefnaflokkar sem koma best út eru sólarorkuver og vindorkuver. Hvernig skyldi standa á þessu?

Skýringin er einfaldlega sú að sólarorkuver byggja á því að raða saman mjög mörgum einingum af sólarsellum, sem allar eru nákvæmlega eins og hægt er að fjöldaframleiða við bestu aðstæður og þannig lágmarka kostnað. Svo eru þær allar settar saman og í heild mynda þær orkuver sem getur framleitt mikla orku. Nákvæmlega sama hugmynd á við um vindorkuver. Við fyrstu sýn virðist erfitt að heimfæra þessa nálgun á suma verkefnaflokka, til dæmis kjarnorkuver og vatnsaflsvirkjanir, en Flyvbjerg bendir reyndar á að að einhverju marki sé einnig hægt að beita eininganálgun á slík verkefni og ná þannig fram hliðstæðri hagkvæmni.

Við höfum séð eininganálgun beitt í verklegum framkvæmdum á Íslandi á undanförnum áratugum með ágætum árangri. Einingahús hafa verið byggð um árabil, bæði úr timbureiningum og steyptum einingum og þessa dagana er mikið talað um krosslímdar timbureiningar. Annað gott dæmi eru hótel sem byggð hafa verið víða um land á miklum hraða. Þar hefur gjarnan verið notast við baðherbergi í heilu hótelin úr verksmiðjum sem sérhæfa sig í að framleiða slík baðherbergi í miklu magni með lágmarks tilkostnaði. Tilbúin baðherbergi í heilt hótel eru þá flutt á verkstað í gámum. Með þessu móti er óvissa lágmörkuð og fyrirsjáanleiki er hámarkaður. Framkvæmdatíminn er styttur og kostnaður verður minni.

Sá mikli áhugi sem við finnum fyrir í dag á beislun vindorku er skiljanlegur í þessu ljósi. Vissulega hefur kostnaður við nýtingu vindafls lækkað, um leið og kostnaður við beislun vatns og gufuafls hefur aukist. En það vegur líka þungt að ef fyrir liggja mælingar yfir lengri tíma á styrk og stöðugleika vinds er fjárfestingin í vindafli næsta áhættulítil og mjög vænlegur kostur fyrir fjárfesta í leit að öruggum fjárfestingaleiðum.

En er ekki langsótt að beita eininganálgun í þeim tröllvöxnu samgönguframkvæmdum sem eru framundan í okkar litla landi? Það er fróðlegt að lesa um lestarkerfið í Madrid í bókinni “How big things get done.” Nú kann að virðast sem lestarkerfi sé ekki mjög vel fallið til eininganálgunar, en raunin er önnur. Á síðasta áratug síðustu aldar voru lagðir um 75 kílómetrar af járnbrautarteinum og settar upp þrjátíu og níu nýjar lestarstöðvar í þessu gríðarstóra verkefni í Madrid. Eininganálgun var útgangspunktur í allri þessari framkvæmd, verkefnið samanstóð í raun af stöðvum sem voru raðsmíðaðar með litlum breytingum, þrjátíu og níu sinnum. Verkefninu var lokið á tvöföldum hraða og helmingi þess kostnaðar sem gengur og gerist í álíka framkvæmdum á heimsvísu.

Þetta dæmi frá Madrid er svo sannarlega gott innlegg í samtímaumræðuna á Íslandi um Borgarlínu og önnur samgönguverkefni framundan. Við ættum að geta hraðað verktíma og dregið úr kostnaði með eininganálgun.

Tökum fram gömlu góðu legókubbana!

0 comments on “Hugsum Lego í risaverkefnum komandi ára

Leave a comment