Ég verð að hefja mál mitt á því að viðurkenna að ég hef ekki mjög sterkan grunn í hagfræði. Það hjálpaði ekki til með áhugann á fyrsta ári mínu í verkfræði við HÍ þegar hagfræðikennarinn, hámenntaður og virtur ráðgjafi, hélt því fram að hallatala beinnar línu færi eftir því hvar maður væri staddur á línunni. Líklega misskildi ég hann en ég hef alla tíð síðan verið svolítið tortrygginn. Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að hagfræði er mikilvæg fræðigrein og mótar hegðun okkar allra.

Í gegnum árin hef ég þróað með mér áhuga á mælingum, kerfum, forystu og stjórnun. Í gæðastjórnun, verkefnastjórnun og stefnumiðaðri stjórnun sést glögglega að mælingar geta haft gífurleg áhrif á hegðun. Þegar mælikvarðar eru vel skilgreindir geta þeir skilað miklum árangri og leitt til æskilegar hegðunar. En þessu valdi fylgir heilmikil ábyrgð. Þegar búið er að innleiða mælikvarða þá eru þeir stundum notaðir til lengri tíma án mikillar gagnrýni eða endurskoðunar. Þetta getur leitt til ófyrirséðra afleiðinga, sérstaklega ef mælikvarðarnir hvetja til hegðunar sem er í raun óskynsamleg eða jafnvel skaðleg í hinu stóra samhengi.
Kannski hljóma ég dramatískur, en það er að hluta til vegna þess að fyrir mörgum árum las ég merkilega bók sem heitir The Limits to Growth og var gefin út árið 1972. Í stuttu máli fjallar hún um það að flestar náttúruauðlindir jarðarinnar eru endanlegar og því er hugmyndin um endalausan vöxt hættuleg ranghugmynd. Með tímanum hafa spár höfunda þessarar bókar að miklu leyti ræst, sem eru ekki góð tíðindi fyrir mannkynið. Við erum að eyða auðlindum, menga umhverfið og virðumst stefna í átt að einhvers konar hengiflugi. Allur þorri vísindamanna heimsins viðurkenna gróðurhúsaáhrifin, ábyrgð okkar manna á þeirri þróun og fyrirsjáanlegar afleiðingar hennar. En margir stjórnmálamenn kjósa að hlusta á þessa örfáu fræðinga sem afneita gróðurhúsaáhrifunum. “Þetta reddast” segja sumir, öðrum finnst væntanlega auðveldara að stinga bara hausnum í sandinn og svo er miklu auðveldara að selja almenningi góðar fréttir en vondar.

Vegna áhuga míns á skipuheildum sem félagslegum kerfum – og stjórnun þeirra – hef ég leitt hugann að því hvort hluti vandamálsins geti verið kerfisvilla; einhverjir mælikvarðar sem stýra okkur í ranga átt. Þetta leiðir mig aftur að hagfræði og hinum allsráðandi mælikvarða verg landsframleiðsla (GDP). Landsframleiðsla mælir heildarvirði fullunninna vara og þjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er grundvallar viðmið fyrir stefnumótun stjórnvalda, fjárfesta og fyrirtækja og jafnan er vísað til þessa mælikvarða þegar rætt er um efnahagsástand þjóðar. Há landsframleiðsla þykir eftirsóknarverð, á meðan lág eða minnkandi landsframleiðsla þykir alvarleg vísbending um vandamál í hagkerfinu. En ég hlýt að spyrja hvort landsframleiðsla sé í eðli sínu góður mælikvarði – þegar horft er á hið stóra samhengi hlutanna. Vaxandi landsframleiðsla endurspeglar líklega aukna framleiðslu, sem byggir oftar en ekki á aukinni notkun hráefna eða náttúruauðlinda. Þetta leiðir þá til framleiðslu nýrra vara, förgunar eldri vara og myndunar úrgangs, sem felur í sér frekari umhverfisáskoranir. Það hlýtur að koma upp sú spurning hvort notkun á þessum hagfræðilega mælikvarða leiði til hegðunar sem er ósjálfbær í eðli sínu. Auðvitað er ég ekki einn um þessar áhyggjur. Einföld leit á Google Scholar skilar fjölda vísindagreina sem fjalla um gagnrýni á þennan mælikvarða og mikilvægi þess að innleiða mælikvarða sem hvetji til breyttrar hegðunar. Nefna má forvitnilega bók sem kom 2019, “Replacing GDP by 2030: Towards a common language for the well-being and sustainability community.” Þar er einmitt verið að sýna fram á hvernig GDP tekur ekkert tillit vistfræðilegrar hnignunar, ójöfnuðar og samfélagslegrar velferðar. Þvert á móti viðhaldi GDP ósjálfbærum efnahagsháttum með því að láta framleiðslu og neyslu skipta öllu máli.
Á annan í jólum skokkaði ég í Elliðaárdalnum með hlaupafélaga mínum, þýska fjárhundinum Naomi, og hlustaði þessu sinni á áhugaverðan hlaðvarpsþátt frá BBC um fjarlægt land sem hefur mikla sérstöðu. Bútan er fremur lítið land á milli Indlands og Kína, um 40% af flatarmáli Íslands. Þar er mikil náttúrufegurð og fjölbreytt dýralíf, m.a. er flest tígrisdýr í heimi að finna í Bútan. Landið var um aldir einangrað og sagt er að fyrstu erlendu ferðamennirnir hafi komið þangað 1974. Bútan sker sig úr sem eina landið í heiminum sem hefur tekið upp annan mælikvarða fyrir opinbera stefnumótun – til hliðar við GDP. Þessi nýi mælikvarði nefnist þjóðarhamingja og er skammstafaður GNH (Gross National Happyness).

Þessi mælikvarði var lögfestur í stjórnarskrá Bútan árið 2008 og hann mælir hamingju og velferð samfélagsins, en ekki bara efnahagslega útkomu. Markmiðið var að nútímavæða Bútan, án þess þó að fórna menningunni og umhverfinu og félagslegum sérkennum samfélagsins. Grunnstoðir GNH eru fjórar: verndun og viðhald menningar, verndun náttúrunnar, sanngjörn og sjálfbær efnahagsleg þróun og góð stjórnsýsla og að ákvarðanir séu í þágu almennings fremur en einstakra hagsmunaaðila. Þessi nýstárlegi mælikvarði stýrir pólitískum ákvörðunum í Bútan og afleiðingar þess má víða sjá svart á hvítu. Til dæmis er bara tilteknum fjölda ferðamanna hleypt inn í landið og ferðamenn borga nokkuð há gjöld fyrir að dvelja í landinu. Með þessari stýringu er fjármagni safnað í ríkiskassann og það nýtt í þágu samfélagsins, en um leið er þörf fyrir uppbyggingu hótela og allskonar innviða sem tengjast ferðamannaiðnaðinum haldið innan marka. Af sjálfu leiðir að Bútan er ekki að græða fúlgur fjár vegna massatúrisma en neikvæð áhrif vegna mikils fjölda ferðamanna eru þá heldur ekki til staðar. Þetta er ákvörðun þjóðar sem vill horfa til lengri tíma og stuðla að jafnvægi milli ólíkra þátta sem liggja til grundvallar þjóðarhamingjunni.
Ég veit vel að Bútan stendur langt að baki vestrænum velferðarsamfélögum hvað varðar fjöldamarga mælikvarða eins og almenna velferð, jafnrétti, meðalaldur og tekjur. En ég get ekki annað en dáðst að frumkvæði þessarar litlu þjóðar og þeirri nálgun hennar að leggja svo mikla áherslu andlega, félagslega og vistfræðilega velferð og sætta sig við að verg landsframleiðsla verði minni fyrir bragðið. Hins vegar er eftirfylgnin með þessu ekki einföld. Hamingja er huglæg, og of mikil áhersla á hana getur leitt til minni áherslu á önnur mikilvæg atriði, eins og efnahagslega þætti. Fyrir liggur að ansi margir af hinum 800.000 íbúum Bútan hafa flutt úr landi á undanförnum áratugum, margir í leit að betri lífskjörum í löndum eins og Ástralíu, þar sem landsframleiðsla á mann er $65.000, samanborið við $4.000 í Bútan.

Þó íbúar Bútan glími við stórar áskoranir, er sannarlega margt sem hægt er að læra af þessari djörfu tilraun til að endurskilgreina þá mælikvarða sem stýra hegðun samfélagsins, fólks, stofnana og fyrirtækja. Þeir í Bútan eru að minnsta kosti ekki mjög uppteknir við það að “bjarga verðmætunum” og “grípa gæsina meðan hún gefst” – eins og gildir um ónefnda þjóð sem “unir grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf.”

0 comments on “Er GDP að leiða okkur fram af bjargbrúninni?”