Hugleiðingar eftir Innviðaþing 2025

Undanfarna daga hef ég fylgst með umræðu í kjölfar Innviðaþings 28. ágúst 2025 en Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra boðaði þar nýja forgangsröðun í samgönguáætlun í haust. Hann sagðist óbundinn af loforðum sem áður hafa verið gefin. Þessi orð ráðherra hafa fengið blendin viðbrögð. Ég hlustaði á viðtal við ráðherrann á RÚV samdægurs. Mig langar að hrósa honum fyrir skynsamleg svör. Stóra spurningin í öllum verkefnum hlýtur að vera sú hverju þau eigi að skila þegar upp er staðið. Hvaða þörfum er verið að mæta? Er kannski hægt að mæta þeim með öðrum hætti? Hvaða verkefni eru brýnust og hvernig getum við stillt upp forgangsröðun sem tryggir hagkvæmni og mætir margvíslegum sjónarmiðum? 

Umræða um þessi mál er gott tækifæri til að beina athygli að því hvernig fagleg verkefnastjórnun getur leitt fram góð svör og hjálpað okkur að sjá skóginn fyrir trjánum. Ég ætla að skrifa tvo stutta pistla af þessu tilefni. Sá fyrri fjallar um fyrirbæri sem við köllum verkefnastjórnsýslu. Sá seinni fjallar um margskonar vitsmunalegar skekkjur sem hindra okkur í að hugsa skýrt og rökrétt þegar við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum.

Í þessum pistli ætla ég að forðast þá freistingu að ræða um einstakar framkvæmdir, hvort heldur þær eru á undirbúningsstigi eða þeim er lokið. Almennt er það skoðun mín að hugmyndir um styrkingu samgönguinnviða eru oftast af hinu góða. Það er enginn skortur á frábærum hugmyndum um verkefni til að stytta vegalengdir, auka öryggi, bæta vegina og fleira. Segja má að þarfirnar séu nánast endalausar og í fullkomnum heimi gætum við ráðist í velflest þessi verkefni á sama tíma og allir yrðu glaðir. En raunveruleikinn er sá að við getum ekki ráðist í þau öll, vegna þess að við höfum úr takmörkuðu fjármagni að spila. Þess vegna þarf að velja verkefnin, raða þeim í forgangsröð og jafnvel hafna sumum þeirra. Það er á endanum á borði kjörinna fulltrúa að taka þessar stóru ákvarðanir, en þær er ekki hægt að taka nema búið sé að vinna mikla undirbúningsvinnu. Fyrst þarf auðvitað að liggja fyrir hvaða upplýsingum skuli safna um verkefnin; við getum talað um þær breytur sem skipta máli við forgangsröðun samgöngumannvirkja sem kostuð eru af almannafé. Þar hljóta að koma til álita þættir eins og öryggismál, byggðasjónarmið, umhverfisþættir, vegastytting og annað hagræði, stofnkostnaður, rekstrarkostnaður og miklu fleira. 

Í sinni allra einföldustu mynd má segja að verkefnastjórnsýslan snúist um að taka saman slíkar upplýsingar um öll verkefnin með faglegum og hlutlausum hætti – og undirbyggja þannig rétta forgangsröðun og skynsamlegar ákvarðanir. Hér verður að beita staðlaðri nálgun. Til dæmis þarf að gera ábatagreiningu með hliðstæðum hætti í öllum verkefnum og greina þarfirnar. Ganga þarf úr skugga um að raunveruleg þörf sé til staðar og hvort hana megi uppfylla með einhverjum öðrum leiðum, og hver verði afleiðingin ef ekki verði ráðist í verkefnið? Einnig þarf alltaf að gera vandaða greiningu á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði, og margvíslegri áhættu sem tengist verkefnunum. Þetta er alls ekki tæmandi listi en allt ofangreint þarf að gera og meta verkefnin með vönduðum og samræmdum hætti. Út úr þessu kemur þá samanburður verkefna og hann leiðir til rökréttrar forgangsröðunar. Á hugmyndaskeiði þarf því að fara fram samanburður á tveimur eða fleiri kostum til að mæta tilteknum þörfum. Ekki er ráðist í kostnaðarsama hönnun og gerð útboðsgagna nema sýnt hafi verið fram á að valin lausn sé betri en aðrar mögulegar lausnir.

Verkefnastjórnsýslan er því faglegt ferli sem á að undirbyggja grunn að góðum ákvörðunum. Svo má heldur ekki gleyma því að umhverfið er breytilegt, þarfir og áherslur geta breyst og ýmsar tæknilegar forsendur geta líka breyst. Þess vegna getur þurft að endurskoða þessa forgangsröðun verkefnasafnsins reglulega. En að lokum kemur svo að hinni pólitísku ákvörðun og þeir sem fara með hið pólitíska vald geta valið að fylgja forgangsröðuninni eða víkja frá henni. Þeir bera á endanum hina pólitísku ábyrgð á ákvörðunum sínum og þurfa að geta varið þær. 

Að lokum vil ég segja að ef það ágæta verkefnasafn sem finna má í samgönguáætlun er þróað eins og lýst er hér að ofan þá má eiga von á að innviðaráðherra tilkynni skynsamlega forgangsröðun í haust. 

Screenshot

0 comments on “Hugleiðingar eftir Innviðaþing 2025

Leave a comment