Gamla hverfið er hljómdiskur sem kom út í júní 2013 og samanstendur af 14 frumsömdum lögum og textum eftir Helga Þór Ingason. Yrkisefnin eru fjölmörk, titillagið er óður til gamla hverfisins. Margir kannast við að eiga sitt eigið “gamla hverfi” og í þessu tilfelli er ort um hverfið þar sem æskuvinirnir Helgi Þór og Einar Clausen ólust upp, Árbæjarhverfið í Reykjavík. Aðrir textar fjalla m.a. um samferðafólkið, ástina, lífið og einn texti rekur ævisögu spænsks hests.
Lögin eru af ýmsum toga, sum eru í suður amerískum takti en einnig eru ballöður á efnisskránni, jass og sumt er erfitt að flokka. Það sem bindur tónlistina saman er hljóðfæraskipan og hljóðfæraleikur en tónlistarflutningur er í höndum eftirtalinna:

Einar Clausen söngur. Einar er atvinnusöngvari, slagverksleikari og tónlistarunnandi sem hefur komið víða við í tónlistinni, sem einsöngvari með kórum og hljómsveitum í ýmsum verkum tónbókmenntanna. Einnig er hann einn af liðsmönnum karlakvartettsins Út í vorið.

Ágústa Ósk Óskarsdóttir nam söng við jazzdeild FÍH. Hún stundaði nám í Complete Vocal Technique söngtækni í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan sem kennari. Hún hefur sungið bakrödd í Evrovision sem og í öðrum stórum tónlistarviðburðum á Íslandi.

Einar Sigurðsson kontrabassi. Einar stundaði nám við Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskóla FÍH og síðar stundaði hann klassískt kontrabassanám í Vínarborg og hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Barcelona og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Karl Pétur Smith er fæddur á Íslandi en flutti til Svíþjóðar fjögurra ára gamall. Karl Pétur bjó í Los Angeles á árunum 1991 – 2012 og starfaði þar sem slagverksleikari og upptökustjóri. Hann hefur starfað með mörgum tónlistarmönnum á Íslandi á seinni árum.

Matthías Stefánsson gítar og fiðla. Matthías nam fiðluleik á Akureyri og við Tónlistarskólann í Reykjavík og gítarleik við Tónlistarskóla FÍH. Hann kennir á fiðlu við Tónlistarskólann í Grafarvogi og er eftirsóttur hljóðfæraleikari og upptökustjóri.

Helgi Þór Ingason píanó og söngur. Helgi Þór lærði á píanó hjá Jóni Stefánssyni sem barn og í Jassdeild Tónskóla FÍH sem táningur. Hann söng um árabil með Kór Langholtskirkju og hefur einnig sungið með Kór Íslensku Óperunnar og Mótettukórnum. Helgi Þór er einn af liðsmönnum South River Band og hefur gefið út 6 hljómdiska með þeirri hljómsveit en einnig starfar hann með þjóðlagasveitinni Kólgu. Helgi Þór er verkfræðingur að mennt og lauk meistaragráðu frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu frá Norska tækniháskólanum í Þrándheimi. Hann er prófessor við Verkfræðideild HR.
Hljómdiskurinn Gamla hverfið var hljóðritaður með lifandi flutningi í heimahúsi í Árbæjarhverfinu dagana 17. og 18. febrúar 2013. Upptökumaður var Jón Kjartan Ingólfsson en Matthías Stefánsson hljóðblandaði.
Með útgáfu þessa geisladisks rættist gamall draumur, en það hefði varla gerst ef ekki hefði komið til hvatning frá æskuvini mínum Einari Clausen, sem að auki glæðir textana mína lífi með sinni fallegu rödd og einstöku túlkun. Þegar ákveðið var að halda tónleika haustið 2012 með þessu efni þurfti ég ekki að leita langt. Ég talaði við kæra vini og frábæra tónlistarmenn, þá Einar Clausen, Einar Sigurðsson og Matthías Stefánsson og svo bættist í hópinn Karl Pétur Smith. Þessi hópur féll ótrúlega vel saman. Lögin voru spiluð inn við kertaljós í huggulegri stemningu í stofunni minni í Árbæjarhverfinu. Ég vil þakka þessum vinum mínum fyrir að gera þennan disk að veruleika, lifandi og fullan af sál, alveg eins og ég vildi hafa hann. Matthíasi þakka ég sérstaklega fyrir hljóðblöndun og eftirvinnslu. Eins vil ég þakka Ágústu Ósk fyrir að syngja eitt laganna fyrir mig, með sinni fallegu rödd. Jóni Kjartani vil ég þakka fyrir fagmannlega vinnu við hljóðupptökur og mörg góð ráð. Emil Hreiðar fær þakkir fyrir að hanna fallegt umslag.
“Ég lifi í núinu og horfi til framtíðarinnar” segi ég stundum við samferðafólkið mitt, “nenni ekki að hugsa mikið um fortíðina.” Það er því svolítið sérstakt að gefa út disk sem heitir Gamla hverfið; geymir gömul lög og texta og segir sögur af liðnum atburðum og fólki sem sumt er horfið á feðra fund. En ætli skýringin á þessu sé ekki sú að það er þrátt fyrir allt fortíðin sem mótar manninn. Ég er þakklátur öllu þessu fólki og tileinka þennan disk fjölskyldu minni og vinum.

