Ég má til með að deila því hér að fyrir skemmstu fórum við hjónin til Eyja í sólarhrings heimsókn. Okkur tókst að skoða ansi mikið á þessum stutta tíma og ég verð að hrósa þeim í Eyjum fyrir það hversu gott lag þeir hafa á að taka á móti ferðamönnum. Veitingahúsin eru frábær, söfnin í toppklassa og leiðbeiningar til ferðamanna eins og best verður á kosið; allt virkar þetta eins og vel smurð maskína.

En ástæðan fyrir þessum stutta pistli er nú annars sú að ég við sigldum auðvitað úr Landeyjahöfn með Herjólfi og það fannst mér skemmtileg upplifun. Það er töfrum slungið að sigla þessa 40 mínútna leið fyrir opnu hafi án vélarhljóðs. Herjólfur er jú rafknúinn og ekkert heyrist nema öldugjálfrið og kannski skrækir í mávunum. Í allri umræðunni um hraða rafmagnsvæðingu bílaflotans okkar þá finnst mér þetta framtak – að ákveða að Herjólfur skuli vera rafknúinn – vera lofsvert og við getum vafalaust lært mikið af reynslunni sem nú verður til í rekstri Herjólfs.
Á undanförnum árum hefur oft verið vikið að Landeyjahöfn og samgöngum til Eyja í námskeiðum mínum í verkefnastjórnun. Við vitum að á fyrstu árum Landeyjahafnar bárust tíðindi af miklum erfiðleiklum, sandburður torveldaði notkun hafnarinnar og því var í umræðunni töluverð gagnrýni á þetta verkefni. Ekki ætla ég að rekja þessi mál hér, en ég hef þó tekið eftir því að undanfarna mánuði eða misseri virðist sem ekki hafi verið neinar stórar truflanir í rekstri Landeyjahafnar. Um þetta má raunar lesa í frétt Fréttablaðsins í vor; nýting hafnarinnar hefur aukist úr 57% upp í 83% með tilkomu nýja Herjólfs.

Á heimleiðinni var fyrrum nemandi minn í MPM námi, Elís Jónsson, yfirvélstjóri Herjólfs við störf á skipinu. Hann var svo vinsamlegur að fara með mig í skoðunarferð um skipið og ég fékk því beint í æð lýsingu á rafbúnaði skipsins, ég fékk að sjá annan stóra rafmótorinn og ég staldraði við í brúnni og spjallaði við Elís og Ívar Torfason yfirskipstjóra.
Það hefur auðvitað orðið bylting í samgöngum til Eyja með tilkomu Landheyjahafnar og nýja Herjólfs sem siglir 7 sinnum milli lands og Eyja yfir sumartímann. Ýmislegt kemur til og skýrir hversu vel gengur. Fyrst og fremst er djúprista skipsins 1,5 metrum minni en gamla Herjólfs. Að auki er nýi Herjólfur betra sjóskip og hann er ákaflega stöðugur á siglingunni. Það vakti líka athygli mína að búið er að koma fyrir í stafni Herjólfs mæli sem mælir uppsöfnun sands á sjávarbotninum. Mælingar á þessu eru því gerðar jafnoft og Herjólfur siglir og má þannig segja að stöðugar mælingar berist Vegagerðinni, sem getur þá brugðist skjótt við og sent sanddæluskip á vettvang umsvifalaust, ef merki sjást um uppsöfnun sands á botninum.
Ég naut gestrisni fleiri heimamanna og Herjólfsmanna því Sigmar Logi Hinriksson skipstjóri gekk með okkur hjónum á Heimaklett. Rættist þar margra ára draumur pistlaskrifara sem þjáist af mildri lofthræðslu og hafði ríka þörf fyrir að ganga á hólm við klettinn – og sjálfan sig.
Ég kvitta fyrir mig með góðum kveðjum og þakklæti til þessara frábæru Eyjamanna!

0 comments on “Hljóðlaus sigling til Eyja”