Þegar á reynir….

Ég ætla að segja stutta hversdagssögu. Ég lenti nefnilega í því fyrir skemmstu – í fyrsta sinn á ævinni – að þurfa að leita ásjár björgunarsveita. Við höfðum brugðið okkur vestur á Snæfellsnes að hitta barnabörnin.  Á leiðinni tilbaka, á sunnudagskveldi, leit þokkalega út með veður, en þegar upp á Fróðarheiði var komið tók heldur betur að syrta í álinn. Þegar ekið var niður af heiðinni sunnanmegin var komin fljúgandi hálka og ég rann rólega út í kant og sat þar pikkfastur. Hér voru góð ráð dýr, fleiri bílar í kring voru í vandræðum; þetta var um miðjan september og menn almennt ekki búnir að skipta yfir á vetrardekkin. Veðrið fór versnandi og það var ekkert annað í stöðunni en að hringja á hjálp. 112 vísaði á lögreglu, og lögregla vísaði á björgunarsveit. Hríðin varð svartari og vindurinn sterkari og mönnum skildist loks að hér væri sannarlega um neyðarástand að ræða. Þegar það lá fyrir var gefin út yfirlýsing um að björgunarsveit væri á leiðinni.

Í millitíðinni hafði ég farið út og gengið könnunarhring í kringum bílinn til að kanna stöðuna og athuga hvort ég ætti einhverja möguleika á að losa hann sjálfur. Því var fljótsvarað og ég sá að mér var ráðlegast að forða mér sem hraðast inn í bílinn aftur. Í þessum könnunarleiðangri vildi þó ekki betur til en svo að fínu Lindberg gleraugun mín fuku af nefinu og út í kófið og ég sá þau aldrei meir. Gleraugun hafði ég keypt fyrir um 10 árum, þegar ég horfist í augu við aldurinn og það að þurfa margskipt gler. Ég hafði splæst í fislétta umgjörð og gleraugun kostuðu drjúga upphæð, verðmæti þeirra reiknast mér um 150 þ.kr.

Feginn var ég þegar ég sá ljós björgunarsveitartrukksins frá Lífsbjörgu í baksýnisspeglinum, eftir að hafa beðið í um tvo klukkutíma og teiknað í huga mínum margs konar dökkar sviðsmyndir um svefnlausa og kalda nótt í framsætinu. Þeir voru ekki lengi að bjarga málum, drógu bílinn upp úr skaflinum og voru svo vinsamlegir að dóla með bílinn fyrir mig niður brekkuna og út úr kófinu. Eftir 700 metra var kominn auður vegur og við komumst heim þessa nótt, þó útlitið hefði verið svart um tíma.

Lífsbjörgu er ég ákaflega þakkátur fyrir þeirra hjálp og það er ágætt að hafa reynt á eigin skinni að björgunarsveitirnar eru til taks þegar á reynir. Það var eins og fyrir gráglettni örlaganna að þremur dögum eftir þessa uppákomu bankaði vörpulegur björgunarsveitarmaður í rauða einkennisgallanum hjá mér og spurði hvort ég vildi gerast bakvörður Landsbjargar. Í því felst að styrkja sveitirnar um vissa fjárhæð mánaðarlega. Ég hélt nú það og er svo sannarlega sáttur að geta lagt mitt af mörkum við að styðja við þeirra mikilvæga starf.

Víkur þá sögu að fínu Lindberg gleraugunum mínum. Ég taldi líklegt að tryggingafélagið mitt myndi vilja standa við bakið á mér og skráði því tjónið á fínu heimasíðunni þeirra. Svarið kom degi seinna. Neibb, þeir tryggja ekki þegar tjónsmunur týnist…. en vegna góðrar viðskiptasögu vildu samt gera undantekningu fyrir mig. Þeir báðu um afrit af kaupnótu og bentu mér á að afskriftir af gleraugum vegna aldurs eru 10% á ári og eigin áhætta 28 þ.kr. Þeir voru svo vinsamlegir að reikna út fyrir mig að tryggingabætur gætu í besta falli numið 17 þ.kr.

Og hvað lærði ég af þessari hversdagssögu? Jú, maður veit þegar á reynir hverjir standa með manni. Og ef fulltrúi tryggingafélagsins les þetta þá bið ég hann bara að láta bara þessar 17 þúsund krónur renna til björgunarsveitanna.

Annars er bara allt gott að frétta!

0 comments on “Þegar á reynir….

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: