Í minningu Tryggva Sigurbjarnarsonar

Tryggvi Sigurbjarnarson var einn af frumkvöðlum verkefnastjórnunar á Íslandi og mikill örlagavaldur, góður vinur, fyrirmynd og góður félagi. Tryggvi lést 12. júní 2023, 87 ára að aldri. Ég skrifaði um hann minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu þann 20. júní, þegar Tryggvi var jarðsunginn frá Neskirkju. Greinin fylgir hér á eftir, en einnig stutt æviágrip Tryggva sem einnig birtist í Morgunblaðinu.

fáein minningarorð

Það var lán mitt að kynnast Tryggva Sigurbjarnarsyni á síðasta námsári mínu í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Tryggvi kom inn sem gestakennari í námskeiði um stjórnun fyrirtækja og kynnti fyrir okkur eitthvað sem hann kallaði verkefnastjórnun og mér fannst það spennandi fag. Nokkrum árum seinna lágu leiðir okkar saman á ný þegar Tryggvi var um tíma verkefnastjóri í stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, hvar ég starfaði. Ég varð hans hægri hönd og ég man vel hvernig hann seldi mér hugmyndina. “Vinnudagarnir þínir munu verða langir og þú færð ekkert hærri laun, en ég skal kenna þér allt sem ég kann um verkefnastjórnun” sagði Tryggvi. Ég stökk á þetta tilboð og örlög mín voru ráðin. Hann stóð við loforðið og leiddi mig inn í veröld verkefnastjórnunar. Tryggvi varð mikill örlagavaldur í mínu lífi og ég fékk að starfa náið með honum um árabil, bæði í ráðgjöf og kennslu.

Tryggvi var einn af frumkvöðlum verkefnastjórnunar á Íslandi. Þau fræ sem hann sáði hafa svo sannarlega skotið rótum – verkefnastjórnun er stunduð í öllum starfsgreinum, stór hluti umsvifa atvinnulífsins er í formi verkefna og fjöldi fólks sækir á ári hverju sérhæft nám í verkefnastjórnun í þremur háskólum á Íslandi. Það er verk að vinna í okkar samfélagi í innleiðingu faglegrar verkefnastjórnunar og þar var Tryggvi svo sannarlega á undan sinni samtíð. Mér finnst það táknrænt fyrir áhrif Tryggva að fréttir af fráfalli hans bárust mér til Írlands þar sem ég sótti stóra alþjóðlega rannsóknaráðstefnu um stjórnun og kynntar voru tvær íslenskar fræðigreinar á sviði verkefnastjórnunar.

En þegar ég hugsa um Tryggva þá er ég honum fyrst og fremst þakklátur fyrir að vera góður vinur, sterk fyrirmynd og kenna mér svo margt. Tryggvi kenndi mér að vera ráðgjafi – það er mikilvægt hlutverk sem kallar meðal annars á ígrundun, þolinmæði, að sýna virðingu, að hlusta og að lesa í aðstæður. Ekki má gleyma að vera vel að sér á þeim sviðum sem ráðgjöfin snýst um, og ekki síður standa klár á því sem maður veit ekki. Með árunum hef ég áttað mig á því að Tryggvi kenndi mér að vera fagmaður.

Ég sendi samúðarkveðjur til Sieglinde eiginkonu Tryggva, og fjölskyldu hans.

Æviágrip

Tryggvi Sigurbjarnarson fæddist að Þingborg í Árnessýslu 9. júlí 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu aðfararnótt 12. júní 2023.

Foreldrar Tryggva voru Sigurbjörn Ketilsson, f. 5. apríl 1910, d. 11. júní 1999, og Hlíf Tryggvadóttir, f. 2. júní 1908, d. 9. maí 1992. Systkini Tryggva: Kristín, f. 1936, Drífa, f. 1942, Álfdís, f. 1947, og Þráinn, f. 1949.

Tryggvi kvæntist 24. desember 1957 eftirlifandi konu sinni Siglinde Eleonore Sigurbjarnarson, f. Klein þann 30. janúar 1937 í Schleiz í Þýskalandi. Hún er menntaður rekstrarverkfræðingur en nam síðar bókasafnsfræði og vann sem bókavörður hjá Orkustofnun og við bókasafn Háskóla Íslands. Foreldrar hennar voru Rudolf Klein f. 28. september 1897, d. 22. desember 1975, og Eleonore Klein, f. Hubrich, þann 25. janúar 1904, d. 26. janúar 1991.

Börn Tryggva og Siglinde:

1) Rán Tryggvadóttir, f. 26. maí 1959, gift Nikulási P.J. Hannigan, f. 26. desember 1957. Börn þeirra eru: a) Nikulás Ari Hannigan, f. 1991. b) Klemens Nikulásson Hannigan, f. 1994. Kona hans er Ronja Mogensen, f. 1997, og börn þeirra eru i) Valkyrja, f. 2017, ii) Aþena, f. 2019, og iii) Hlíf, f. 2022

2) Ketilbjörn Rúdolf Tryggvason, f. 27. apríl 1962, kvæntur Kerstin Tryggvason, f. Springborn þann 29. apríl 1967. Börn þeirra eru a) Finn Jonas, f. 1995. Hans kona er Mahshid Shadlo, f. 1995 b) Liv Antonia, f. 1998, og c) Ole Lennart, f. 2001.

3) Haraldur Flosi Tryggvason Klein, f. 29. nóvember 1966, kvæntur Ágústu Kristínu Andersen, f. 25. janúar 1971. Dóttir þeirra er Jórunn Elenóra, f. 31. október 2005. Haraldur átti fyrir Matthías Tryggva,1994. Kona hans er Brynhildur Karlsdóttir, f. 1994, og dóttir þeirra er Sóley, f. 2022. Ágústa átti fyrir Ívar Elí Sveinsson, f. 1992. Kona hans er Kristín Björg Sigurvinsdóttir, f. 9. mars 1992, og sonur þeirra er Ágúst Elí, f. 2021.

Tryggvi lauk stúdentsprófi frá Laugarvatni 1954, prófi í raforkufræðum frá Technische Hochschule Dresden í Þýskalandi 1961 og námi í verkefnastjórnun hjá Morten Fangel 1985. Tryggvi starfaði um árabil að orkumálum, fyrst var hann rafveitustjóri í Siglufirði 1961-1966, síðan deildarverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins frá 1966 og hjá Landsvirkjun frá 1969 og stöðvarstjóri Sogsvirkjana 1970-1974. Hann varð meðeigandi í verkfræðistofunni Rafteikningu frá 1975, stofnaði síðan ásamt fleirum verkfræðistofuna Línuhönnun 1979. Uppúr fimmtugu færði hann sig á svið verkefnastjórnunar þar sem hann var frumkvöðull og átti farsælan feril sem ráðgjafi og kennari um árabil. Undir sjötugt söðlaði hann enn um og hóf nám í fararstjórnarfræðum og var elsti nemandi sem hefur útskrifast í því námi og starfaði sem fararstjóri um árabil eftir það. Það nám tengdist líka miklum áhuga hans á íslenskum fræðum og fornbókamenntum. Þau fræði áttu hug hans frá unga aldri. Tryggvi var mikilvirkur námskeiðshaldari og fararstjóri í tengslum við Íslendingasögur og aðrar fornbókmenntir.

Tryggvi tókst á við alzheimersjúkdóm síðustu árin af miklu æðruleysi og lést í svefni aðfaranótt 12. júní.

Tryggvi heiðraður af MPM náminu þegar þriðji hópurinn var útskrifaður vorið 2009

Þegar þriðji nemendahópurinn í MPM námi var útskrifaður vorið 2009 var Tryggvi heiðraður og honum afhent viðurkenningarskjal. Texti þess fer hér á eftir, ásamt ljósmynd sem tekin var við þetta tækifæri.

Kæri vinur

Við viljum sýna þér þakklæti okkar á þessum fallega degi þegar við útskrifum þriðja MPM hópinn.

Þú ert einn mikilvægasti  brautryðjandi verkefnastjórnunar á Íslandi. Það hafa að sönnu verið forréttindi að starfa með þér og njóta reynslu þinnar og þekkingar í árangursríku uppbyggingarstarfi í hartnær áratug. Við erum óendanlega þakklátir þér fyrir leiðsögnina, fyrir áhugann, fyrir drifkraftinn, fyrir að koma okkur niður á jörðina þegar við flugum helst til hátt, fyrir að blása undir vængina þegar við flugum of lágt. Fyrir að vera félagi, fyrirmynd og frumkvöðull !

Þú ert frjáls hugur og það lýsir þér best að þegar þú minnkar við við þig í kennslunni sestu á skólabekk til að nema ókunn lönd, í fleirum en einum skilningi. Við vonum þó að í komandi leiðsögn þinni og ferðamennsku finnir þú enn stund og stund til að aðstoða okkur, gefa nemendunum sýnishorn af þinni miklu reynslu og til að setjast með okkur og gefa okkur góð ráð þegar á þarf að halda.

Með innilegu þakklæti, fyrir hönd MPM námsins,

Helgi Þór og Haukur Ingi

0 comments on “Í minningu Tryggva Sigurbjarnarsonar

Leave a comment