Sápulaust…..

Skipafélögin eru nú uppvís að umfangsmiklu og óforskömmuðu samráði sem stóð yfir um árabil. Áður hafa olíufélögin orðið uppvís að slíku samráði, stærstu byggingavöruverslanirnar og tryggingafélög. Þessi tilvik, ásamt fleiri tilvikum sem ég hef ekki yfirsýn yfir, eru staðfest. En oft finnst manni undrum sæta hvað verð á allskonar vörum og þjónustu hér á landi er svipað, og furðulega hátt miðað við hvað gengur og gerist víða erlendis. Ætli þeir séu ekki fleiri, fundirnir í Öskuhlíð eða í skuggalegum bakherbergjum þar sem ríkir kaupahéðnar skipta á milli sín hinum örsmáa íslenska markaði í skjóli nætur?

Og á hverjum bitna svo þessir glæpir? Nú les maður um að Alcoa hafi verið svikið um gríðarlegar upphæðir í helmingaskiptum skipafélaganna. En það þarf ekki mikla rökvísi til að sjá að á endanum bitnar þetta samráð að mestu á neytendum, venjulegu fólki sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Fólki sem á ekkert val. Við höfum nefnilega ekki úr svo mörgum skipafélögum að velja. Tryggingafélögin eru teljandi á fingrum. Eins með byggingarvöruverslanir og banka. Hér ríkir fákeppni á flestum sviðum. Það er nú nógu slæmt fyrir neytendur, eins og lesa má úr myndinni hér að ofan. En svo breytist fákeppnin í einokun þegar glæponar ákveða að taka snúning á neytendum og skipta með sér markaðnum. Við þekkjum þetta, það liggur við að við séum farin að líta á þetta sem sjálfsagðan hlut.

En þarf þetta að vera svona? Hvað væri hægt að gera í okkar litla, fallega og góða landi, til að stuðla að heilbrigðri samkeppni? Til að skapa aðstæður til að fleiri sjái sér hag í að höndla hér með flutninga, tryggingar, byggingarvörur, bankaþjónustu og svo margt fleira? Væri jafnvel hægt að slá tvær flugur í einu höggi og stuðla um leið að jafnvægi í samfélaginu, tryggja fyrirsjáanleika og stöðugleika í fjármálum, lækka vexti og bæta kjör almúgans? Ég var ekki lengi að finna burðuga lausn á þessu vandamáli, þegar ég íhugaði málið á leið minni suður yfir heiðar á fallegu mánudagssíðdegi í septemberbyrjun.

0 comments on “Sápulaust…..

Leave a comment