"Það er hlandlykt af frelsinu"

Smjörklípa allra smjörklípa er enn á dagskrá. Í þrettánda skiptið er frumvarp fyrir Alþingi um breytingar á áfengislöggjöfinni. Málshefjendur tala um frelsi í viðskiptum. Það er talað um þetta á kaffistofum, í kjörbúðum, á samfélagsmiðlum og það er hiti í mönnum. Á meðan erum við ekki að tala um ójöfnuð í samfélaginu, um aflandsskýrsluna, um leiðréttinguna, um sjálfbærni eða um vanda heilbrigðiskerfisins.
“Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil” – eru rök málshefjenda og þeirra sem harðast ganga fram í stuðningi við þessar breytingar. En ég á bágt með að skilja þetta mál. Allir fagaðilar sem fjalla um þetta mál eru sömu skoðunar, óháð flokkslínum. Fræðimenn sem rannsakað hafa vensl á milli aðgengis að áfengi og áfengistengdra vandamála víða um heim virðast vera sammála. Allt heilbrigðisstarfsfólk, fólk sem starfar í félagslega kerfinu, allir sem einhverja þekkingu og reynslu hafa af því að glíma við afleiðingar áfengissýki eru líka sammála. Og þeim ber auðvitað saman við þá sem hafa verið fórnarlömb áfengissýki í einni eða annarri mynd. Þegar hömlur eru losaðar af sölu áfengis eykst neysla þess. Kostnaður samfélagsins og hörmungar í fjölskyldum aukast í línulegu samhengi við neyslu. Það er ekki deilt um þetta.
Mér brá þegar ég hlustaði á nýskipaðan þingmann tala fyrir þessu máli í útvarpsviðtali fyrir skemmstu og ég áttaði mig á grundvallaratriði í málatilbúnaði hans. Málið er að þeir sem tala fyrir breytingum á áfengislöggjöfinni virðast tilbúnir til að færa þessa fórn, á altari frelsisins. Eða þá að þeim er skítsama um afleiðingarnar. Frelsi þeirra og aukin lífsgæði felast í því að geta kippt með sér bjórkippu eða rauðvínsflösku í Bónus, og þurfa ekki í Vínbúð til þess. Með þessi rök að vopni tala menn sig hása um frelsi einstaklingsins og að aðrar vörur séu líka hættulegar, til dæmis sykur og bensín, og ættu þess vegna með sömu rökum að vera í smásölu á vegum ríksins.
Ég er meðal þeirra sem hafa svo sannarlega verið þolendur áfengisbölsins, og séð afleiðingar þess í sínum svörtustu myndum, ekki bara á þann áfengissjúka heldur á alla í kringum hann, ættingja og vini – áratug eftir áratug. Þolinmæði mín gagnvart málatilbúnaði hinna sjálfskipuðu frelsispostula er engin. Áfengi er fíkniefni. Ef menn vilja ræða um prinsipp þá skulum við frekar ræða um það prinsipp hvort það eigi yfirleitt að selja áfengi.
Ég minnist þess að gamall skólafélagi minn, gallharður sjálfstæðismaður, fór til Kaliforníu í framhaldsnám í verkfræði. Hann skrifaði pistil til skólafélaganna eftir að hafa verið ár í þessu fyrirheitna landi frelsins. “Það er hlandlykt af frelsinu” var yfirskriftin og þar vísaði hann til fjölda útigangsmanna og ógæfufólks á strætum San Fransisco sem naut frelsis og góðs aðgengis að eina löglega eiturlyfi í heimi. Það ber öllum saman um það að hlandlyktin í þjóðfélagi okkar mun aukast með auknu aðgengi að áfengi. Hlandlyktin er afleiðing af mannlegri eymd, sorg, fátækt og þjáningu. Ég vil ekki meiri hlandlykt í samfélagi okkar og ég vildi óska þess að alþingismenn horfðu til framtíðar og snéru sér að því að ræða mikilvæg mál.

2 comments on “"Það er hlandlykt af frelsinu"

  1. Úlfar

    Mjög góð skrif. Að vísu hefur verið prófað að banna áfengi á hinum frægu \”bannárum\” með slæmum afleiðingum og ég held að slík umræða sé ekki inn í myndinni. Áfengi er og verður meðal vor. En að auka aðgengi og eyða tíma í þessa umræðu er ábyrgðarhluti

    Like

Leave a comment