Frábær vorferð MPM námsins í veðurblíðunni í Eyjafirði 

Í lok 2. misseris í MPM námi er ætíð farið í vettvangsferð út á land til að heimsækja áhugaverð verkefnadrifin fyrirtæki og skoða verkefni af ýmsu tagi. Vorferðin í MPM2023 hópnum var farin 22. og 23. apríl á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit.

Að morgni föstudagsins 22. apríl var flogið til Akureyrar. Fyrsti áfangastaðurinn voru höfuðstöðvar Vistorku og Orkuseturs á Rangárvöllum. Guðmundur H. Sigurðarson, Sigurður I. Friðleifsson og Eyrún Gígja Káradóttir tóku á móti hópnum og sögðu frá fjölbreyttum verkefnum á Akureyri á sviði orku og úrgangsmála, rafbílavæðingu, vindmyllum í Grímsey, úrgangsflokkun, moltuframleiðslu og breyttu neyslumynstri, meðal annars örri rafhjólavæðingu á Akureyri – en rafhjólið hefur gert það verkum að brekkurnar eru ekki lengur fyrirstaða fyrir því að komast sinna ferða á reiðhjóli. Næst lá leiðin í Ráðhús Akureyrar og þar tóku á móti okkur þau Ásthildur Sturludóttir, Pétur Ingi Haraldsson, Steindór Ívar Ívarsson og Dóra Sif Sigtryggsdóttir og sögðu frá fjölbreyttum verkefnum, en íbúum á Akureyri hefur fjölgað umtalsvert og mikil uppbygging er framundan í nýjum hverfum í norðurhluta bæjarins. Uppbygging nýrra hverfa byggir á langtíma stefnumótun og kallar á vandaða uppbyggingu nýrra innviða og þjónustu, meðal annars skóla og þjónustu við aldraða. Næst lá leið hópsins í höfuðstöðvar Höldurs en þar tóku á móti okkur þeir Geir Kristinn Aðalsteinsson, Steingrímur Birgisson, Sigursteinn Ingvarsson og Stefán Einar Sigmundsson. Þeir kynntu Höld, sem rekur stærstu bílaleigu á Íslandi, og sögðu nýtingu upplýsingatækninnar í daglegri stýringu og umbótastarfi en einnig frá helstu verkefnum og þátttöku í að byggja upp ferðamannaiðnaðinn. Einnig var fjallað um umfangsmikla rafbílavæðingu Hölds, en hún er háð uppbyggingu innviða víða um land, einkum hleðslustöðva á gististöðum. Nú lá leið hópsins í skrifstofu sem nýtt ráðuneyti stjórnarráðsins rekur í sögufrægu húsi á Akureyri, Hafnarstræti 91 þar sem aðalskrifstofa Kaupfélags Eyfirðinga var áður til húsa. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið rekur nýja starfseiningu á Akureyri, með áherslu á nýsköpun. Þau Sigurður Steingrímsson og Selma Dögg Sigurjónsdóttir eru starfsmenn þessa nýja ráðuneytis og hafa lengi starfað að nýsköpunarmálum. Nýja ráðuneytið hefur nýverið kynnt skipurit sitt, en þar er heldur betur sleginn nýr tónn, horfið frá hefðbundnu deildaskipulagi en þess í stað innleitt stjórnskipulag þar sem áhersla er lögð á getuna til að móta stefnu til framtíðar, og hrinda henni í framkvæmd með árangursríkum hætti.

Síðasta heimsóknin föstudaginn 22. apríl var á vettvang ótrúlega spennandi verkefnis sem nú er á lokametrunum því afrakstur þess hefur litið dagsins ljós og Skógarböðin í Eyjafjarðarsveit verða opnuð eftir fáeina daga. Þær Eva Björk Halldórsdóttir og Tinna Jóhannsdóttir tóku á móti hópnum en frumkvöðlarnir, þau Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður Hammer voru leiðsögumenn og gengu með okkur um svæðið og sýndu okkur hin stórglæsilegu Skógarböð sem nýta heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngunum. Hvergi hefur verið til sparað í hönnun og frágangi, en samt er verktíminn ótrúlega skammur og það má þakka framkvæmdasemi, dugnaði og útsjónarsemi frumkvöðlanna, en einnig góðu veðri í vetur! Skógarböðin í Eyjafjarðarsveit verða án vafa mikill segull fyrir ferðamenn í Eyjafirði og heimamenn munu njóta góðs af þessu mikla framtaki. Hópurinn endaði daginn á sundferð að Hrafnagili og svo var haldið í náttstað að Lambinn í Eyjafjarðarsveit.

Sama veðurblíðan ríkti laugardaginn 23. apríl, seinni dag vorferðarinnar. Dagurinn hófst á byggingarstað einbýlishúss í Eyjafjarðarsveit og greint var frá tilurð verkefnisins, þarfagreiningu, hönnun, verklegri framkvæmd og stöðu verksins. Að þessu loknu var haldið til Akureyrar og í Menningarhúsinu Hofi tók Atli Örvarsson tónskáld á móti hópnum og greindi frá ævintýrinu í Hofi. Hann er heimsþekkt tónskáld og semur einkum tónlist við kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Atli flutti til heimabæjar síns Akureyrar með fjölskyldu sína fyrir fáeinum árum, þar er hans starfsstöð í alþjóðlegum tónlistarverkefnum og Menningarhúsið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands eru eftirsóttur vettvangur fyrir upptökur á tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefnis Netflix og fleiri framleiðenda. Atli greindi hópnum frá þessari ævintýralegu uppbyggingu, sýndi hópnum hinn glæsilega tónleikasal Hofs og upptökustúdíóið á efri hæðum hússins en þar var Árni F. Sigurðsson upptökumaður að störfum. Með heimsókninni í Hof lauk vorferð MPM námsins 2022 og hópurinn flaug suður yfir heiðar síðdegis laugardaginn 23. apríl.

Í MPM náminu er áhersla lögð á tengsl við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni jafnt sem í höfuðborginni og vorferðin er því mikilvægur þáttur í náminu. Segja má að þema þessarar vorferðar hafi verið breytingar, áræðni, þróttur, gleði og vilji til góðra verka! Við vorum afskaplega heppin með gestgjafa, fróðleg erindi og höfðinglegar móttökur. Gestgjöfum færum við okkar bestu þakkir og almættinu þökkum við fyrir frábært veður í þessari 17. vorferð MPM námsins.

Áður hefur verið ferðast um á austurlandi, norðurlandi, á Reykjanesi, á vesturlandi, á suðurlandi, í Vestmannaeyjum og á vestfjörðum. Fáein dæmi um gestgjafa í vorferðum fyrri ára eru Strandabyggð, 3X Skaginn, Vegagerðin, Límtré Vírnet, Norðurorka, Akureyrarbær, Samherji, Landsvirkjun, Fjarðabyggð, Alcoa, Reykjanesbær, Reykjavíkurborg, HS Orka, Bruggsmiðjan, Landgræðslan, Orkuveitan, Siglingastofnun, Vinnslustöðin, Sæferðir, Landmælingar, Háskólinn á Hólum, SORPA bs, Steinullarverksmiðjan, Actavis, Marel, Vísir og Grindavíkurbær.

0 comments on “Frábær vorferð MPM námsins í veðurblíðunni í Eyjafirði 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: