Safnarölt og gerfigreindarsagnfræði

– dagbókarbrot frá Vínarborg

“Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér” mælti skáldið. Hann líður víst jafnhratt í Vínarborg og í Reykjavík en mér þykir undrum sæta að þegar þetta er ritað er ég búinn að vera hér í 12 vikur, og á bara 7 vikur eftir. Í þessu dagbókarbroti nefni ég að við hjónin höfum ekki verið sérlega duglega að fara á söfn í Vín, ekki nema tónlistarsöfn. Ég fer varlega í að leiða hana á söfn eftir þessa fjögurra klukkustunda heimsókn okkar á Þjóðminjasafnið í Edinborg þarna um árið. Við höfum reynt að tala sem minnst um þá heimsókn og söfn höfum við forðast.

En hvað um það, hér í Vínarborg eru mörg söfn, heilt safnahverfi í miðborginni og síðustu daga höfum við heimsótt tvö þeirra. Á laugardag fyrir páska fórum við á Nútímalistasafnið MUMOK. Margt einkennilegt bar þar fyrir augu og ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki mikið. Kannski er það einmitt akkilesarhæll minn að þurfa alltaf að skilja allt, þurfa alltaf að leita uppi hið rökræna samhengi, orsök og afleiðingu, tilgang? Heimsóknin á MUMOK hefði samt fengið betra eftirbragð ef kaffið í kaffiteríunni hefði staðið undir lágmarksvæntingum. Það var því með kvíðablandinni eftirvæntingu að við lögðum leið okkar í safn Hagnýtra lista MAK bara fjórum dögum síðar. Þar sá ég fyrir mér að allt kæmi heim og saman og ég myndi öðlast skilning á samhengi fegurðar og tilgangs. Heimsóknin á MAK var fróðleg en vakti fleiri spurningar en hún svaraði. Ég lagði ekki í kaffið en klósettaðstaðan stóð undir væntingum. Og kannski er svarið við spurningunni minni að finna í ljóðlínu skáldsins sem vitnað var til hér í upphafi; “ég veit að ókeypis er allt það sem er best.”

Það var nefnilega alveg ókeypis að fara í langan göngutúr á páskadag, við gengum alla leið upp meðfram Dónárkanalnum, allt frá Wien Mitte og vestur til Nussdorf þar sem kanallinn mætir stóru Dóná. Þar gengum við einmitt framhjá Spittelau sorpbrennslustöðinni sem mér verður óþægilega tíðrætt um í þessum pistlum. Það var áhugavert að sjá staðinn þar sem kanallinn mætir Dóná, þar stjórna þeir vatnsrennslinu í kanalinn, væntanlega þarf heilmikla mekaník og stýrikerfi til þess. Þessi göngutúr var um 8 km en þegar maður gengur 3 km til vinnu og annað eins tilbaka daglega er það nú ekki mikið. Ég er farinn að finna fyrir liðverkjum og eymslum í nára og ég held helst að það sé útaf alltof mikilli göngu. Getur einhver skýrt fyrir mér af hverju þessi ónot eru fyrir ofan vinstri löpp? Ég held að ég gangi ekkert meira á vinstri löpp en þeirri hægri.

Að síðustu greini ég hér frá sagnfræðilegri uppgötvun sem ég hef gert, með aðstoð ChatGPT. Ég leitaði aðstoðar spjallmennisins til að fá innblástur í sagnfræðigetraun sem ég hef verið að þróa í tónum og tali. Ég bað spjallmennið sumsé um að gefa mér dæmi um merka íslenska konu sem hefði verið uppi á tímabilinu 1400-1900. Ekki stóð nú á svari – spjallmennið sagði “Yes, certainly” og jós svo úr viskubrunni sínum. Ég læt svarið fylgja orðrétt í lauslegri þýðingu Google Translate:

Ragnhildur Jónsdóttir fæddist í Vatnsdal árið 1715 og var áberandi á Íslandi á 18. öld. Hún var af auðugu fólki komin og varð sjálf auðugur bóndi, kaupsýslukona og frumkvöðull sem átti og rak fjölda fyrirtækja, þar á meðal verslun, búgarð og ullarvinnslu. Sérstaklega varð henni vel ágengt í ullarvinnslu og verksmiðja hennar ein sú stærsta á Íslandi. Loks átti hún fjölmarga fiskibáta og var umsvifamikil í fiskvinnslu. Hún tók einnig þátt í stjórnmálum, var mikill leiðtogi og er þekkt fyrir að hafa haft mikil áhrif í sínu samfélagi. Meðal annars barðist hún fyrir réttindum bænda og fyrirtækjaeigenda og einnig fyrir bættu vinnuumhverfi verkafólks. Ragnhildur er mjög þekkt fyrir að leiða hina svokölluðu “Hildarstefnu” – pólitíska hreyfingu sem þróaðist á norðurlandi um miðja 18. öld. Ragnhildur er talin ein farsælasta og áhrifamesta kona Íslandssögunnar.

Nú kann að vera að ég hafi verið sofandi í þeim íslandssögutímum í Árbæjarskóla og MS þegar fjallað var um Ragnhildi, en getur einhver sagt mér nánari deili á þessari stórmerkilegu og áhrifamiklu konu?

Annars er bara allt fínt að frétta frá dásamlegu Vínarborg.

0 comments on “Safnarölt og gerfigreindarsagnfræði

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: