Ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið

– dagbókarbrot frá rannsóknarleyfi í Vínarborg

Almenningssamgöngukerfið hér í Vínarborg er aldeilis frábært. Þar fyrir utan er mjög þægilegt að hjóla og gott að ganga. Google maps segir mér til dæmis að ég sé 36 mínútur að ganga í háskólann – um 2,8 km vegalengd. Google maps segir mér að ég væri 22 mínútur með almenningssamgöngukerfinu. Þar af væri 1 km ganga, að og frá stoppustöðvum sporvagnsins. Ég vel alltaf að ganga í skólann og það tekur mig rétt undir 30 mínútur og er ákaflega hressandi! En þetta almenningssamgöngukerfi er ótrúlega einfalt og skilvirkt og við notum það mikið. Það er líka ódýrt, fyrir 51 evru má kaupa mánaðarmiða sem gildir í öll almenningssamgöngutæki í borginni.

Ég er dauðfeginn að sú afleita hugmynd mín að taka bíl með mér hingað út dó drottni sínum áður en hún olli verulegum skaða. En þetta var heldur ekki síðasta vonda hugmyndin sem ég hef fengið.

Við hjónin sátum á kaffihúsi snemma í febrúar og spáðum í kort sem sýnir almenningssamgöngukerfið í heild. Þetta kerfi er töfrum slungið fyrir fólk sem býr við fremur fábreyttar almenningssamgöngur í sínu heimalandi. Hér er útdráttur úr samtalinu:

“Mikið er þetta frábært kerfi, það er hægt að taka lestir ofanjarðar og jarðarlestir og sporvagna og strætó um alla borg. Heyrðu, ég er með frábæra hugmynd – eigum við ekki að fá tilfinningu fyrir borginni með því að stinga okkur niður í metróinn og fara endanna á milli í öllum línunum?” “Hvað áttu við?” “Jú, við bara komum upp á öllum endastöðvunum, löbbum hring og sjáum hvað fyrir augu ber, og stingum okkur svo aftur niður og komum svo upp í hinum endanum og skoðum okkur um þar.” “Já, ertu viss um að þetta sé góð hugmynd?” “Já hún er það, við skulum bara vakna snemma á sunnudaginn og klára þetta.”

Við vorum komin af stað kl. 10 á sunnudagsmorgni og byrjuðum á rauðu línunni í suður og komum upp í Oberlaa. Það er reyndar fallegt svæði – stór almenningsgarður og Therme Wien, með sundlaugum og heitum pottum. Eftir 15 mínútna rölt fórum við aftur niður í metróinn. Ferðin upp á Leopoldau var rúmlega hálfnuð (16 mín) þegar mér var orðið ómótt og með snert af hausverk. Ég hugsaði með hryllingi til þess að þjóta milli endastöðva í jörðu niðri í heilan dag, sjá fátt nema kolsvört lestargöngin og koma upp endrum og sinnum líkt og moldvarpa – til þess eins að ná andanum og slá aðeins á ógleðina. Ég þurfti að vinda ofan af þessari gölnu hugmynd minni og horfði vandræðalega á Möggu, “eigum við ekki bara að láta rauðu línuna duga í dag?”

Þegar upp er staðið þá er það sjaldnast áfangastaðurinn sem skiptir málin heldur ferðalagið. Þetta var góð lexía fyrir mann sem er svolítið upptekinn af áþreifanlegum markmiðum. Helsta markmiðið er ekki svo áþreifanlegt, þetta að njóta lífsins, horfa út um gluggann, og þá skiptir áfangastaðurinn ekki endilega máli. Þess vegna er skemmtilegra að ferðast með sporvagni því þá getur maður horft út og séð það sem fyrir augu ber.

Að búa í Vínarborg í vor er einskonar ferðalag. Það er eitthvað nýtt að sjá á hverjum degi, eitthvað nýtt að upplifa. Lítið dæmi um þetta var heimsókn í Jazzland í fyrradag, elsta jassklúbbinn hér í borg sem boðið hefur upp á lifandi jass 6 daga í viku síðan 1972. Þetta er notalegur staður sem lætur ótrúlega lítið yfir sér, inngangurinn á staðinn er í inngarði, aðkoman er svolítið eins aðkoma að smíðaverkstæði og þarna koma ekki aðrir en þeir sem vita nákvæmlega hvert þeir eru að fara. Við hlustuðum á frábært band sem heitir Coquett Jazzband og spilar hefðbundinn swing jazz, Ain’t she sweet, Honeysuckle rose, Cry me a river og slíka standarda. Með þeim var ansi góð söngkona, Tanja Filipovic. Hún er ung en með tón og raddbeitingu sem minnti á Ellu Fitzgerald.

Lífið er sannarlega ljúft í dásamlegu Vínarborg!

0 comments on “Ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: