"Our secret to long life"

Ég rölti út í Shaws markaðinn í kvöld. Það er svona 15 mínútna labb frá mér, markaður á stærð við Hagkaup í Skeifunni. Þar má fá allt milli himins og jarðar, eða þar um bil. Það vakti sérstaklega athygli mína að boðið er upp á íslenskt vatn. Það er reyndar að finna í hillum með dýran varning, innfluttan. Á svipuðum slóðum eru t.d. danskir ostar.

Það er svo sannarlega notalegt að finna það hér og hvar að Ísland er skammt undan! Flugvélarnar fljúga yfir mann að heiman og steinsnar í burtu getur maður komist í blessað Gvendarbrunnavatnið og svolgrað að vild. Eins og þeir segja á miðanum:

“Iceland Spring, close to the Artic Circle, the world’s source of fresh water, is pure and refreshing like no other. Filtered through the lava mountains of Iceland it has one of the naturally lowest mineral contents of any water and a neutral pH close to that of our bodies. Icelanders live longer than any other nationality, we believe our secret to long life is our water.”

Það er bara svona. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að lykillinn að eilífðinni væri í krananum og klósettinu heima. En hvað skyldu herlegheitin kosta? Ég keypti að gamni hálfan ltr. og hann kostar 1$. Ekki mikið fyrir “long life”. Ég fór auðvitað að spá í viðskiptamódelið. Nú má nefnilega kaupa vatn í Hagkaupum að því er ég held. Hvað kostar hálfur lítri af vatni þar? Mig grunar að það sé amk. ekki minna en 70 krónur. Ég velti þessu nú fyrir mér vegna þess að þegar hátt verðlag á matvöru á Íslandi er réttlætt fyrir sauðsvörtum og einföldum almúganum er jafnan talað um hinn mikla flutningskostnað – við að koma vörunni til Íslands. Maður hefði haldið að það virkaði í báðar áttir, eða hvað?

3 comments on “"Our secret to long life"

 1. Siggi Þórisson

  Sæll frændi.Alltaf gaman að líta við hjá þér og fylgjast með lífinu hinumegin við hafið.Var einmitt rétt í þessu að ljúka við mynd þar sem að hinn víðfrægi MIT-prófessor Noem Chomsky var að predika hans sannleika.Snjall kall.Aldrei að vita nema að leiðir ykkar liggi saman á göngum skólans.Linguistics og verkfræði, gæti komið út sem skemmtileg blanda….

  Like

 2. Árni Sigurður

  Þú ferð náttúrulega niður í móti þegar þú flytur frá íslandi … það segir sig sjálft, það hlýtur að vera ódýrara

  Like

 3. Takk fyrir kveðjuna frændi – og fyrir skýringuna bróðir. Hún er örugglega ekki síðri en sannleikurinn. Annars er það að flytja vatn úr Gvendabrunnunum til Boston svipað og flytja túlípana úr Hveragerði til Amsterdam. Það er nefnilega hægt að drekka vatn úr krönunum hérna. En það er \”big business\” að selja fólki átappað vatn á flöskum. Get sumpart skilið það í Bandaríkjunum – næ því engan veginn með Ísland 🙂

  Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: