Rétt eða rangt?

Maður er hugsi yfir stöðunni. Þessi mikla skýrsla er komin fram og hún er afdráttarlaus. Hún virðist renna stoðum undir ýmislegt sem rætt hefur verið um á síðustu misserum um orsakir þess að allt fór hér á annan endann. Það var ekki tilfallandi skyndilegt hamfaraflóð. Það var fyrst og fremst afleiðing kolrangrar hagstjórnar, lausataka á fjármálakerfi og þó einkum og sér í lagi vegna taumlausrar græðgi hjá tilteknum hópi einstaklinga sem nýttu sér ástandið í eigin þágu.

En það er galli á gjöf Njarðar. Skýrslan hefur í raun ekki gert annað en að renna styrkari stoðum undir það sem flestir vissu. Vanir stjórnmálamenn, embættismenn, bankastjórnendur og fyrrverandi bankaeigendur vita að menn eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Sumir kjósa að þegja þunnu hljóði. Sumir telja að sókn sé besta vörnin. Enginn hefur döngun í sér til að stíga fram og axla sína ábyrgð. Að óbreyttu mun þetta mál því fjara út og við lærum ekkert af reynslunni.

Það er því nauðsynlegt að taka af tvímæli um það sem skýrslan segir. Dómstólar verða að skera úr um sekt og sakleysi þeirra einstaklinga sem rannsóknarskýrsla Alþingis talar um, stjórnmálamanna, embættismanna og fjármálamanna. Þetta má ekki dragast.

Ekki endilega til að hefna eða tryggja makleg málagjöld. Ekki til að fylla fangelsin af fólki. Þeir sem verða dæmdir sekir eru flestir vel menntaðir, vel gefnir og duglegir einstaklingar. Þeir munu geta borgað skuldir sína til samfélagsins í formi gjaldeyris og samfélagsþjónustu.

Við þurfum að fara með öll þessi mál fyrir dómstóla strax til að við – sem þjóð – getum verið sammála um muninn á réttu og röngu. Til að það sé alveg á hreinu að atferli það sem skýrslan dregur fram var ekki einungis siðferðislega rangt; það var ólöglegt.

Þegar við erum sammála um muninn á réttu og röngu getur margumtöluð siðbót hafist. Ekki fyrr.

0 comments on “Rétt eða rangt?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: