Getum við nýtt okkur hugmyndir stefnumiðaðrar hugsunar og vikið af vegi niðurrifs og ágreinings sem engu skilar?

Við áramót er gott tækifæri til að líta yfir farinn veg en dvelja þó ekki of lengi við það heldur horfa til framtíðar. Hvað þarf til svo íslenskt þjóðfélag megi þróast áfram og hvernig má halda áfram að byggja upp skilyrði fyrir velmegun og velsæld? Margt hefur áunnist á stuttum tíma og samfélag okkar hefur breyst úr því að vera fátækt í að vera ríkt samfélag sem býr þegnum sínum bestu fáanleg lífsskilyrði. Betur má ef duga skal og árangur í fortíð tryggir ekki árangur í framtíð. Þeim sem þetta ritar finnst helst skorta á í íslensku samfélagi að við berum gæfu til að tala saman um það sem máli skiptir, vega og meta ólíkar leiðir að settu marki, taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir.
Það sem vantar oft er stefnumiðuð hugsun, hugsun sem nær lengra en út eitt kjörtímabil. Alltof mikil orka fer í þras um það sem litlu máli skiptir, og að vera ósammála til þess eins að vera ósammála. Stundum er líkt og við hræðumst að ræða það sem skiptir máli. Það er eins og við nærumst á ósamkomulagi og þrætum og alltof ríkt er í okkur að gagnrýna fólk í stað þess að ræða efnislega um hugmyndir þess.
Stjórnunarfræðin geyma vissulega ekki svör við öllum vanda en einföld grunnhugmynd stefnumótandi áætlanagerðar gæti hjálpað. Þetta er sú einfalda hugmynd að meta umhverfi og skilja hver við erum og hvert hlutverk okkar er, skilgreina sýn um það hvert við viljum fara til framtíðar, og leggja niður fyrir okkur hvernig þessari framtíðarsýn verður náð. Í þekkingarsamfélagi nútímans útfærum við þessa hugmynd með lifandi hætti með þátttöku fólksins. Og það er ekki nóg að marka stefnu, henni þarf að fylgja eftir og þar kemur verkefnastjórnun til sögunnar með sína áherslu á lifandi áætlanagerð og eftirfylgni, og ekki síður á færni á sviði mannlegra samskipta.
Grunnhugmyndir stefnumiðaðrar stjórnunar nýtast svo sannarlega við stjórnun smærri sem stærri skipuheilda og sérstaklega eru áhugaverðar hinar nýlegu áherslur á opna stefnu (e. open strategy) og víðtæka þátttöku sem meðal annars er möguleg vegna þeirrar tækni sem upplýsingabyltingin hefur fært okkur. Hér gætu opnast tækifæri fyrir íslenskt samfélag að víkja af vegi ágreinings, þar sem orka fer til spillis, og þróa þess í stað samræðuhefð þar sem virðing er borin fyrir andstæðum skoðunum og við fögnum uppbyggilegum ágreiningi sem leiðir til betri og farsælli niðurstöðu. Allir hafa nefnilega – þegar upp er staðið – það markmið að vinna landi og þjóð til heilla.
Gleðilegt ár !

0 comments on “Getum við nýtt okkur hugmyndir stefnumiðaðrar hugsunar og vikið af vegi niðurrifs og ágreinings sem engu skilar?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: