Vísindamaður af íslenskum ættum hlýtur alþjóðleg rannsóknaverðlaun í verkefnastjórnun

Sú hefð hefur skapast hjá IPMA, Alþjóðasamtökum verkefnastjórnunarfélaga, að veita árlega verðlaun fyrir framlag til rannsókna á fræðasviðum verkefnastjórnunar. Verðlaun eru veitt í þremur flokkum. Í fyrsta lagi “Young researcher” en þau eru veitt einstaklingum sem hafa lokið afburðagóðum doktorsverkefnum á sviðum verkefnastjórnunar. Í öðru lagi eru veitt “Research achievement” verðlaun en þau hljóta einstaklingar fyrir frábært ævistarf í rannsóknum í verkefnastjórnun. Í þriðja lagi eru svo hin eiginlegu “Research award” en þau eru veitt einstaklingum eða teymum fyrir frábærar rannsóknir á sviðum verkefnastjórnunar á undanförnum árum.
Á rannsóknarráðstefnu IPMA í Tianjin í Kína í desember voru rannsóknarverðlaun IPMA veitt Dr. Janice Thomas sem er prófessor við Athabasca University í Kanada. Rannsóknir hennar snúast um innleiðingu verkefnastjórnunar í fyrirtækjum. Dr. Thomas og rannsóknarteymi hennar söfnuðu gögnum um innleiðingu verkefnastjórnunar í 48 fyrirtækjum og gögnin samanstóðu meðal annars af djúpviðtölum, spurningalistum, myndefni, upplýsingum úr gagnasöfnum fyrirtækjanna. Vart er hægt að rekja niðurstöður Dr. Thomas í stuttu máli en fram kemur meðal annars að forsendur fyrir árangri í innleiðingu verkefnastjórnunar séu áhersla á að læra af reynslu,  ferlisvæðing, skilningur á bakgrunni og valdahópum fyrirtækis, þátttaka og samskipti í hópi starfsmanna og það hvernig stjórnkerfi fyrirtækisins er byggt upp. Mestum árangri skilar að gera umtalsverðar breytingar í upphafi innleiðingar, en fylgja þeim svo eftir með stöðugu umbótastarfi. Rannsóknir Dr. Thomas þykja vera stórt skref fyrir þróun verkefnastjórnunar sem fræðigreinar.

Ég ræddi við Dr. Janice Thomas og í spjalli okkar kom í ljós að hún er af íslensku bergi brotin. Forferður hennar bjuggu í Skagafirði og fluttu vestur um haf til Kanada. Hún var áhugasöm um Ísland og ég gæti vel trúað að leið Dr. Janice Thomas eigi eftir að liggja til Íslands til að halda erindi um rannsóknir sínar fyrir ört stækkandi samfélag áhugafólks um faglega verkefnastjórnun á Íslandi.

0 comments on “Vísindamaður af íslenskum ættum hlýtur alþjóðleg rannsóknaverðlaun í verkefnastjórnun

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: