Það eru liðnir þrír dagar frá heimkomunni frá Eþíópíu og Kenýa. Það mun taka drjúgan tíma að vinna úr öllu því sem fyrir augun bar. Hefðubundið frí við sundlaugarbakka á spænskri sólarströnd virðist svo hversdagslegt núna, þegar ég hugsa um allt það sem ég upplifði á þessum fáu dögum.
Hvað situr eftir? Jú, við sáum ansi mörg dýr sem maður hefur lesið um frá barnsaldri, og kannski séð í dýragörðum. Hér sáum við þau frjáls og í náttúrulegu umhverfi sínu. Við fengum innsýn í sögu og menningu fjarlægra þjóða og sáum til dæmis hvernig Kenýa hefur reitt af í gegnum söguna og hvaða erfiðleika sú þjóð glímir við í dag. Viðmælendum bar saman um að eitt helsta vandamál Kenýamanna væri rótgróin spilling. Til dæmis er það alþekkt að bílstjórar almenningsvagna rukka farþega aukalega á rigningardögum og stinga viðbótinni í vasann. Kenýa er þó lýðveldi sem glímir að auki við töluverða hryðjuverkaógn, eins og sterk öryggisgæsla í höfuðborginni bar vitni um. Við ókum framhjá Westgate verslunarmiðstöðunni þar sem byssumenn drápu yfir 60 manns í skotárás 21. september 2013. Miðstöðin er enn lokuð, viðgerðir standa yfir og sjá má kúlnagötin í veggjum hússins.
Í Eþíópíu er ástandið með öðrum hætti. Þar er vart hægt að tala um raunverulegt lýðræði heldur hafa sömu öfl verið við völd árum saman og rætt er um pólitískar ofsóknir á hendur öðrum flokkum. Hins vegar eru öryggismálin býsna traust í Eþíópíu og mér var sagt að hryðjuverkaárás Al-Shabaab væri ólíkleg. Jafnvel þó slík árás yrði gerð myndi umfjöllun um hana vera umsvifalaust kæfð af hálfu stjórnvalda.
En kannski skipta mestu minningar um fólkið. Kjör þess og aðstæður eru ólík – bilið á milli ríkra og fátækra í þessum löndum er miklu miklu meira en við þekkjum á Íslandi. Mörg híbýli sem við ókum framhjá í Kenýa þættu varla boðleg sem hænsnakofar á Íslandi en sumir búa í afgirtum villum. Það var samt áberandi að hvarvetna mættum við fyrst og fremst brosum og hlýlegu viðmóti.
En kannski skipta mestu minningar um fólkið. Kjör þess og aðstæður eru ólík – bilið á milli ríkra og fátækra í þessum löndum er miklu miklu meira en við þekkjum á Íslandi. Mörg híbýli sem við ókum framhjá í Kenýa þættu varla boðleg sem hænsnakofar á Íslandi en sumir búa í afgirtum villum. Það var samt áberandi að hvarvetna mættum við fyrst og fremst brosum og hlýlegu viðmóti.
Við erum öll svipuð og grunnþarfir okkar eru þær sömu, hvort sem við búum á Íslandi eða Kenýa. Við höfum væntingar um öryggi, ást, umhyggju og samskipti við fjölskyldu og vini, og þrá eftir að læra eitthvað nýtt – þróast og þroskast. Gott dæmi um þetta var bílstjórinn og leiðsögumaðurinn okkar í Kenýa, hann Kevin. Hann er 27 ára og fæddur í litlu þorpi við Mt. Kenýa. Kominn af mjög fátæku fólki og alinn upp í fátækrahverfi í Nairobi. Í dag sér hann fyrir móður sinni og tveimur yngri systkinum. Hann var eins og gangandi alfræðiorðabók og vissi bókstaflega allt um náttúruna og var svo áhugasamur og ástríðufullur þegar hann sagði frá. Kevin hafði þann draum að læra meira, komast í háskóla. Vonandi verður honum að ósk sinni.
Ég er feginn að ég afréð að fara þessa ferð, þrátt fyrir að ýmsar fordómafullar og hræddar raddir í mínu eigin höfði hvísluðu að mér varnaðarorðum um ebólu, glæpamenn og terrorista í nágrannalöndum eins og Sómalíu, Súdan og Yemen. Eftir á var þetta frábær upplifun og reynsla.
Ég er feginn að ég afréð að fara þessa ferð, þrátt fyrir að ýmsar fordómafullar og hræddar raddir í mínu eigin höfði hvísluðu að mér varnaðarorðum um ebólu, glæpamenn og terrorista í nágrannalöndum eins og Sómalíu, Súdan og Yemen. Eftir á var þetta frábær upplifun og reynsla.
0 comments on “Lokakveðja frá Kenýa”