4. rannsóknaráðstefna IPMA í Reykjavík 14.-16. september 2016

Þegar það er ekkert plan B
Fjórða rannsóknaráðstefna IPMA fór fram á Nauthóli í Reykjavík dagana 14.-16. september. Þetta var svo sannarlega merkileg ráðstefna og ég væri ekki hissa þó hennar yrði minnst í framtíðinni sem fundarins þar sem mikilvæg endurskilgreining á tilgangi og megináherslum IPMA átti sér stað og ýmis grundvallarhugtök í verkefnastjórnun voru skilgreind upp á nýtt. Að minnsta kosti vona ég að svo verði.
Hópur MPM nemenda úr HR kynnti verkefni sitt úr MPM náminu og sagði frá skilgreiningum sjálfbærni og helstu niðurstöðum Parísarráðstefnunnar 2015 og þeim áhrifum sem þetta mun hafa á líf okkar í framtíðinni. Yvonne Schoper prófessor í Þýskalandi sagði frá tíu þáttum – og þróun þeirra – sem munu móta líf okkar í framtíðinni, til dæmis fólksfjölgun, loftslagsbreytingum, tækniþróun og gildismati almennings. Gilbert Silvius prófessor í Hollandi greindi frá því hvernig sjálbærni hefur orðið mikilvægur þáttur í starfsemi stórra alþjóðlegra fyrirtækja og ætti að vera lykilþáttur í hugtakagrunnum verkefnastjórnunar. Sú er reyndar raunin með nýjustu útgáfu hugtakagrunns IPMA, ICB4. Peter Morris, prófessor í London og einn af frumkvöðlum verkefnastjórnunar sem fræðigreinar, hélt áhrifamikið erindi um það sem er að gerast í veröldinni og færði rök fyrir því að í stað þess að eyða tíma í að ræða um sjálfbærni ættum við að beina sjónum okkar beint að loftslagsbreytingum og hvernig bregðast mætti við þeim áður en það yrði of seint. Dr. Michael Young frá Ástralíu talaði um hinar gríðarlegu breytingar sem nú þegar eru að eiga sér stað vegna loftslagsáhrifanna. Sem dæmi nefndi hann stóra kóralrifið undan ströndum Ástralíu – stærsta kóralrif í heimi. Fyrir fáeinum vikum urðu alvarlegar skemmtir á 80% kóralrifisins vegna hækkandi hitastigs sjávar. En það eru líka jákvæð teikn á lofti því innan verkefnastjórnunar er aukin vitund um hina aðsteðjandi ógn og sérstakir staðlar um sjálfbærni hafa litið dagsins ljós og geta hjálpað verkefnastjórum við ákvarðanatöku og framkvæmd verkefna.
Þátttakendur á þessari ráðstefnu voru um 50 frá fleiri en 20 löndum. Umræður í vinnuhópum þátttakenda voru afar merkilegar og sýndu glögglega fram á mikla ábyrgð verkefnastjórnunar sem fræðigreinar. Verkefnastjórnun er alhliða stjórnunaraðferð, áherslan hefur færst frá stjórnun einstakra verkefna. Við getum ekki bent á hin og þessi hlutverk innan fyrirtækja og stofnana og haldið því fram að það sé á ábyrgð annarra að taka ákvarðanir sem telja má ábyrgar frá sjónarhorni samfélagsins og sjálfbærni. Við þurfum nýja hugsun, við þurfum að leggja áherslu á yfirsýn og að skilja stóra samhengi hlutanna. Við þurfum að endurstilla viðhorf okkar, hugsun og gildismat. Verkefnastjórar morgundagsins þurfa að tileinka sér kerfishugsun því þeir verða að geta skilið verkefnin sem hluta af stóra samhenginu. Þeir þurfa að hafa trausta þekkingu á hinum mismunandi þáttum sjálfbærni, félagslegum þáttum, umhverfisþáttum og efnahagsþáttum. Síðast en ekki síst verða þeir að hafa rétt viðhorf, siðferði og dómgreind til að taka réttar ákvarðanir – í þágu samfélagsins og heimsins – en ekki bara með þrönga hagsmuni í huga.

Svo virðist sem veröldin sé á siglingu í átt að brún hengiflugs. Í stað þess að bregðast við þessu erum við föst í andratakinu, njótum lífsins lystisemda, göngum rösklega á auðlindir jarðar án þess að gefa gaum að því að við erum að ganga á forðabúr komandi kynslóða. Við hlustum á fallegan fiðluleik og nörtum í vínber á meðan eldar eru að kvikna í Róm – ef ég leyfi mér að nota gamla samlíkingu. Verkefnastjórnun getur svo sannarlega gert sitt til að reyna að forða því að við förum fram af brún hengiflugsins. Ábyrgð IPMA er mikil því IPMA eru alþjóðleg samtök sem skilgreina verkefnastjórnun. Við megum engan tíma missa því eins og Ban Ki-moon sagði, “there is no plan B because there is no planet B.”

0 comments on “4. rannsóknaráðstefna IPMA í Reykjavík 14.-16. september 2016

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: