MPM á ferðalagi í Borgarfirði

Í lok 2. misseris í MPM námi er jafnan farið í vettvangsferð út á land til að heimsækja áhugaverð verkefnadrifin fyrirtæki og skoða verkefni þeirra. Vorferðin í MPM2018 hópnum var farin 21. og 22. apríl í Borgarfjörðinn.
Ferðin hófst föstudaginn 21. apríl með heimsókn í Vegagerðina í Borgarnesi. Á móti okkur tóku þeir Ingvi Árnason svæðisstjóri, Jón Helgi Helgason verkefnisstjóri og Pálmi Þór Sævarsson deildarstjóri. Þeir sögðu frá starfsemi Vegagerðarinnar kynnt, meðal annars hvernig gagnagrunnar og spálíkön eru notuð til að segja fyrir um nauðsynlegt fé til viðhalds vegakerfisins. Fjárveitingar eru hins vegar ekki endilega í samræmi við þetta. Leiðin lá í Límtré Vírnet sem er öflugt iðnfyrirtæki. Þeir Andri Daði Aðalsteinsson markaðsstjóri og Einar Bjarnason gæðastjóri sögðu okkur frá starfseminni og sýndu okkur verksmiðjuna. Límtré Vírnet framleiðir vörur eftir pöntunum viðskiptavina og starfar eftir vottuðum gæðakerfum. Starfsemin er háð markaðsumhverfinu eins og það er hverju sinni og hópurinn fékk að fylgjast með naglaframleiðslu, sem er í þann mund að leggjast af – en markaði þó upphaf á starfsemi Vírnets í Borgarnesi. Næst lá leiðin í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Auður Magnúsdóttir deildarforseti tók á móti hópnum en Ragnar Frank Kristjánsson lektor leiddi stórskemmtilega vettvangsferð um svæðið og sagði frá sögu og starfsemi þessa skóla sem hefur mikla sérstöðu sem felst í því að viðfangsefni hans er náttúra Íslands – nýting hennar, viðhald og verndun. Frá Hvanneyri lá leiðin í Húsafell. Þar tók á móti hópnum Edda Arinbjarnar móttökustjóri á nýju og stórglæsilegu hóteli, Hótel Húsafelli. Húsafell hefur ætíð verið vinsæll áfangastaður íslenskra ferðamanna. Nýja hótelið byggir þannig á gamalli hefð. Sjálfbærni var leiðarstef í byggingu hótelsins, öll orka er framleidd á staðnum, bæði rafmagn og heitt vatn, og nýverið fékk hótelið eftirsótta alþjóðlega vottun sem staðfestir þessa sérstöðu.
Að morgni laugardagsins 22. apríl sótti hópurinn Prestsetrið í Reykholti heim og þar tóku á móti hópnum þau Dagný Emilsdóttir móttökustjóri og sr. Geir Waage sóknarprestur. Reykholt er merkur menningarstaður, skólasetur, kirkjustaður, prestsetur og höfuðból. Þau hjónin hafa staðið fyrir gríðarlegu uppbyggingarstarfi í Reykholti. Þegar þau komu á staðinn 1978 voru hús illa farin en með sameiginlegu átaki og hjálp fjölda fólks og stofnana, á Íslandi og í Noregi, hefur orðið gjörbylting í ásýnd og innviðum í Reykholti og þar er meðal annar rekin Snorrastofa, í sama húsi og ný kirkja í Reykholti. Leið okkar lá þessu næst á Bifröst en þar tók á móti okkur Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst. Hann sagði okkur frá starfsemi skólans og sérstöðu hans sem felst meðal annars í staðsetningunni á þessum fallega stað, en einnig í þeirri áherslu sem skólinn hefur á undanförnum árum lagt á fjarkennslu. Á Bifröst er hægt að stunda grunnnám og meistaranám, en einnig er þar boðið upp á símenntun. Síðasti áfangastaðurinn í Borgarfirði var Landnámssetrið í Borgarnesi. Þar tók á móti hópnum frumkvöðullinn Kjartan Ragnarsson og hann sagði frá því hvernig hugmyndin um Landnámssetrið kviknaði hjá þeim hjónum Kjartani og Sigríði Margréti sumarið 2003. Í samstarfi við Borgarbyggð og fjölda fyrirtækja og stofnana tókst að koma Landnámssetrinu á laggirnar. Grundvöllurinn undir þeim árangri var – að sögn Kjartans, að gera viðskiptaáætlun í upphafi og nýta hana til að greina hinar viðskiptalegu forsendur og móta verkáætlun um uppbygginguna. Velgengnin hefur verið mikil frá upphafi og gestum hefur fjölgað mjög mikið.
Í MPM náminu er þung áhersla á að halda tengslum við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni jafnt sem í höfuðborginni. Vorferðin er því mikilvægur þáttur í náminu. Við erum ákaflega þakklát fyrir móttökurnar, fróðleg erindi og gestrisni og færum við gestgjöfum okkar bestu þakkir.

Áður hefur verið ferðast um á austurlandi, norðurlandi, á Reykjanesi, á vesturlandi, á suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Meðal margra frábærra gestgjafa í vorferðum fyrri ára hafa verið Norðurorka, ÍAV í Vaðlaheiðargöngum, Akureyrarbær, Samherji, Landsvirkjun, Fjarðabyggð, Alcoa, Reykjanesbær, HS Orka, Bruggsmiðjan, Landgræðslan, Orkuveitan, Vegagerðin, Siglingastofnun, Vinnslustöðin, Sæferðir, Landmælingar, Kaupfélag Skagfirðinga, Háskólinn á Hólum, Biskupssetrið á Hólum, Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki, Actavis, Marel, Vísir og Grindavíkurbær.

0 comments on “MPM á ferðalagi í Borgarfirði

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: