Hvernig má styðja við innleiðingu verkefnastjórnunar í íslensku samfélagi?

Þetta var til umfjöllunar á ráðstefnunni Vor í verkefnastjórnun sem MPM námið á Íslandi og Verkefnastjórnunarfélagið stóðu að á síðasta ári. Hátt í 40 manns tóku þátt í vinnustofu þar sem þessi spurning – ásamt öðrum mikilvægum spurningum – voru ræddar. Þátttakendur voru fulltrúar ólíkra atvinnugreina, allir voru þeir áhugamenn um verkefnastjórnun og flestir virkir og jafnvel leiðandi í hagnýtingu hennar í sínum fyrirtækjum. Í ljósi þessa er útkoman úr vinnustofunni mjög áhugaverð og hún verður rakin hér í fáeinum orðum.

Það þarf aukna fræðslu um fagið og hún þarf að miðast við alla aldurshópa og sérstaklega mikilvægt er að nota miðla sem höfða til yngri kynslóða. Kveikja þarf áhuga á verkefnastjórnun snemma, strax í grunnskóla. Í þessu skyni væri tilvalið að gera stutt myndbönd sem nota mætti í kynningarstarfi og jafnvel í kennslu. En fræðsla er ekki nóg ein og sér, það þarf aukna þjálfun og menntun allra í kerfinu, til dæmis notenda, verkefnisstjóra, millistjórnenda og stjórnenda. Raunar má finna töluvert framboð af lengri og styttri námsbrautum á mismunandi skólastigum um verkefnastjórnun, en það var mál manna að enn væri rúm fyrir aukið framboð náms og námskeiða um verkefnastjórnun, á öllum skólastigum. Hér var bent á hliðstæðu; fjármálalæsi hefur verið í umræðu um nokkur ár og þar er markvisst verið að reyna að framkalla hugarfarsbreytingu hjá ungu fólki.

Rætt var hvernig auka mætti áhuga og vitund í samfélaginu á verkefnum og stjórnun þeirra. Nefnt var að viðurkenningar fyrir góðan árangur í verkefnum væru hvetjandi og til þess fallnar að vekja áhuga á faginu. Til dæmis mætti veita verðlaun fyrir afburðaverkefni og einnig mætti veita verðlaun einstaklingum sem eru á einhvern hátt til fyrirmyndar í verkefnastjórnun. Það er einmitt mikilvægt að persónugera verkefnastjórnun og skapa fyrirmyndir, bæði konur og karla, stráka og stelpur – sem eru þátttakendur í verkefnum eða stjórna verkefnum. Þetta leiðir til aukinnar umræðu, virkar hvetjandi og eykur áhuga á faginu. Einnig þarf að segja reynslusögur af verkefnum – ekki síst sögur af vel heppnuðum verkefnum. Ástæðan er sú að þegar verkefni rata í fjölmiðla eru þau oftar en ekki á einhvern hátt farin út af sporinu og þetta hefur mótar umræðuna um verkefnastjórnun og ímynd fagsins.
Rætt var um að vottunarkerfi væri mikilvægt. Hér er vísað til þess að Verkefnastjórnunarfélagið hefur árum saman haldið utan um vottun á þekkingu og reynslu verkefnastjóra, í umboði Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga (IPMA). Vottun er alþjóðleg staðfesting á þekkingu og reynslu verkefnastjóra og er mikilvægur þáttur í að skilgreina fagið. Fagleg vitund var þátttakendum einmitt ofarlega í huga og nefnt var að koma mætti upp umræðuvettvangi um verkefnastjórnun þar fólk gæti deilt þekkingu sinni og reynslu og komist í víðtækt tengslanet til að deila hugmyndum – og fræðast. Slíkur umræðuvettvangur gæti einnig orðið leiðbeinandi varðandi góðar aðferðir (e. best practices) við innleiðingu og eflingu verkefnastjórnunar í hvers konar skipuheildum, og aukið vitund um nauðsyn þess að gera stöðugt betur, bæta stöðugt ferli og aðferðir til að draga úr sóun og ná betri og betri árangri. Nefnt var að varðandi faglega vitund, umræðuvettvang, gagnabanka um góðar aðferðir gæti Verkefnastjórnunarfélagið tekið leiðandi hlutverk.

Rætt var um að það þyrfti meira framboð af ráðgjöf í verkefnastjórnun. Fundarmenn töldu að rými væri fyrir fyrirtæki sem búa yfir sérhæfðri þekkingu á faginu og geta boðið hana fyrirtækjum sem vilja standa faglega að verkefnum sínum – án þess endilega að byggja sjálf upp sérþekkingu á verkefnastjórnun. Reyndar var það mál manna að þörf væri á auknum rannsóknum og enn sterkari fræðilegan grunn fagsins – með því er vísað til þess að verkefnastjórnun er ung fræðigrein og enn er mikið verk óunnið í að skilgreina fræðilegar undirstöður þess og hasla því völl sem sjálfstæðrar fræðigreinar innan fræðasviðs stjórnunar.

Að lokum var rætt um stjórnvöld, sem fyrirmynd og risastóran hagsmunaaðila þar sem gríðarlegum fjármunum er varið til verkefna. Stefna stjórnvalda þarf að vera skýr, ákvarðanataka um verkefni þarf að vera gagnsæ og það þarf að vera skýlaus krafa um faglega verkefnastjórnun í opinberum verkefnum. Fyrir Alþingi er einmitt þingsályktunartillaga um að gera stórátak á því sviði.

0 comments on “Hvernig má styðja við innleiðingu verkefnastjórnunar í íslensku samfélagi?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: