Fyrir skemmstu var ég viðstaddur jarðarför manns sem var ekki svo mörgum árum eldri en ég, en samt sem áður var hann í senn velgjörðamaður, leiðbeinandi og vinur minn. Fráfall hans, langt fyrir aldur fram, fékk mig til að velta vöngum yfir því hve stutt lífið er og hve mikilvægt það er að koma í verk góðum hlutum og hafa góð áhrif í umhverfi sínu, en þetta voru einmitt einkennandi þættir fyrir lífsstarf Þorsteins Inga Sigfússonar prófessors. Mig langar að hugleiða stuttlega sitthvað sem ég lærði af Þorsteini, en var þó aldrei til prófs eða metið með formlegum hætti. Samstarf okkar var á sviðum verkfræði, efnisfræði og eðlisfræði, við unnum frumkvöðlastarf sem skilaði að lokum stofnun sprotafyrirtækis á grunni viðskiptahugmyndar sem kviknaði í okkar samstarfi. Hún varð að fyrirtæki sem starfaði með ágætum árangri um árabil.
Myndin er tekin við formlega opnun verksmiðju Als, álvinnslu ehf í Helguvík í október 2003. Greinarhöfundur stendur við hlið Þorsteins Inga. Þriðji aðstandandi félagsins er lengst til vinstri á myndinni, Stefán Reynir Kristinsson heitinn. Sjá fjórði er væntalega í pontu; Halldór Jónsson hæstaréttarlögmaður.
Nú hefur starfssvið mitt um langt árabil tengst stjórnun fyrirtækja, verkefnastjórnun, gæðastjórnun og stefnumótun og ég get því speglað ýmislegt af því sem ég lærði í samstarfinu við Þorstein Inga í þessum fræðum. Hann var nefnilega töluverður áhrifavaldur. Ég kynntist Þorsteini Inga þegar ég var að ljúka námi mínu í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og hann bauð mér að koma og starfa með hópi fólks sem honum tengdist og vann að viðfangsefnum á sviði verkfræði og efnisfræði í samstarfi við íslensk iðnfyrirtæki, ekki síst Íslenska járnblendifélagið sem rak kísiljárnsverksmiðju á Grundartanga. Þetta tækifæri nýtti ég mér og með því voru örlögin ráðin, ef svo mætti segja.
Þorsteinn Ingi hafði gott lag á að búa til teymi af fólki með rétta menntun og rétta hæfni, hann samræmdi störf þessara teyma en aldrei þó með boðvaldi eða skipunum heldur notaði hann hvatningu og leiðsögn til að örva frumkvæði og skapandi framlag svo teymin mættu ná árangri. Hans mottó var því að búa til vel samhæfð teymi og skapa þeim réttar aðstæður. Þessi formúla varð mér augljós mörgum árum síðar þegar ég hóf að leiðbeina nemendum á sviði iðnaðarverkfræði, sem stúderuðu lyklana að afburðaárangri í verkefnum og rekstri fyrirtækja. Þar skiptir nefnilega miklu sú formúla sem hér var lýst. Rétt teymi, sem býr yfir réttri þekkingu og hefur metnað til góðra verka, er sett í réttar aðstæður og fær hvatningu – slíkt teymi getur náð undraverðum árangri. Ég held að Þorsteinn Ingi hafi nýtt sér þessa formúlu oftar en einu sinni. Þetta, ásamt frábæru innsæi og þekkingu hans á raunvísindum, leiddi til þess að hann náði að hafa ótrúlega mikil og góð áhrif og koma miklu í verk á sinni alltof stuttu ævi.
Að síðustu vil ég þó nefna það krydd sem Þorsteinn Ingi þekkti vel og þarf að vera til staðar í öllum teymum, en það góð stemning og kímnigáfa; hlátur í bland við alvöruþrungnar rannsóknir og þróunarvinnu. Ég mun því minnast Þorsteins Inga ekki bara sem velgjörðamanns og vinar og viðskiptafélaga heldur ekki síður fyrir þægilega og góða nærveru og þann létta og góða anda sem ávallt fylgdi honum. Þorsteinn Ingi hafði lag á að byggja upp og viðhalda þessum anda með óformlegum hætti, í kaffistofuspjalli, á ferðalögum og á verkstað, en einnig með formlegri hætti þegar hann hóaði hópnum saman og menn gerðu sér glaðan dag og fögnuðu góðum árangri. Minningin um Þorstein Inga mun áfram veita mér innblástur í störfum mínum, rétt eins og ráð hans og hvatning hafa reynst mér vel í starfi og leik undanfarna áratugi.
Myndin er tekin þegar bráðið ál rennur úr bræðsluofni Als, álvinnslu ehf í fyrsta sinn, þann 24. október 2003.
0 comments on “Að byggja upp rétt samsett teymi er lykillinn að árangri”