Risaverkefni og áhætta

– til þess eru vítin að varast þau!

Óvissa er óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi og öllu því sem við ráðumst í, hvort sem það er stórt og smátt í sniðum. Í óvissu leynast tækifæri sem við viljum gjarnan grípa en einnig leynist í henni áhætta og við þurfum að læra að glíma við þessa áhættu. Þetta gerum við öll í okkar daglega lífi. Sumir kaupa sér rafmynt – í von um að hún muni hækka í verði – aðrir draga það helst til lengi að láta gera við þakið, enn aðrir selja húsið sitt án þess að vera búnir að kaupa sér annað þak yfir höfuðið. Þetta eru dæmi úr hversdagslífinu en í þessum stutta pistli ætla ég að gera að umfjöllunarefni mínu áhættu og risastór verkefni, sem stundum eru kölluð megaverkefni. 

Í samhengi verkefna er áhætta oft tengd við fjármál og vissulega felst fjárhagsleg áhætta í því að ráðast í tiltekið verkefni en það getur ekki síður falist veruleg fjárhagsleg áhætta í því að ráðast ekki í verkefnið. Við reynum að bregðast við áhættunni með margvíslegum hætti. Stundum má forðast áhættuna; þróa verkefnið þannig að áhættan sé lágmörkuð. Stundum reyna menn að kaupa sér tryggingu gagnvart áhættunni og deila henni þannig með öðrum. Stundum ákveða menn einfaldlega að taka áhættuna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Enginn eðlismunur er á þessu eftir því hve stór verkefnin eru, og því er augljóst að í tröllvöxnum verkefnum – svonefndum risaverkefnum – getur hin fjárhagslega áhætta einnig verið tröllvaxin. Megaverkefni einkennast af því að fjárhagslegt umfang þeirra er slíkt að þau geta haft áhrif í þjóðhagslegu samhengi. Í slíkum verkefnum þarf því að gæta sín sérstaklega vel, passa upp á fagmennskuna og nýta sér reynslu annarra því við eigum nýlegar dæmisögur af fjöldamörgum risaverkefnum sem framkvæmd hafa verið á undanförnum árum og áratugum, með misjafnlega góðum árangri. 

Risaverkefni og áhætta eru nátengd hugtök og oft þarf að grípa til skapandi hugsunar til að undirbúa og framkvæma verkefni þannig að sem mest sé dregið úr áhættu. Hér fara þá saman nýsköpun, risaverkefni og áhætta en þetta eru einmitt meginþemu alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Reykjavík þann 20. október í samvinnu Háskólans í Reykjavík og Verkfræðingafélags Íslands. Heiti þessarar ráðstefnu er IMaR (Innovation, Megaprojects and Risk). Of langt mál væri að telja upp þá fræðimenn sem stíga munu á stokk en þessum stutta pistli langar mig að benda á tvo þekkta fræðimenn sem koma til Íslands til að deila reynslu sinni og þekkingu. Báðir eru þeir prófessorar við virta þýska tækniháskóla. Sá fyrri er Dr. Werner Rothengatter, einn af þremur höfundum frægrar bókar sem heitir “Megaprojects and risk.”

Sú bók olli straumhvörfum í því hvernig menn líta á risaverkefni því í henni voru dregnar fram staðreyndir um ýmislegt sem farið hefur úrskeiðis í þekktum risaverkefnum síðustu áratuga. Þar má nefna eðlislæga bjartsýni sem veldur því að áætlanir um tíma og kostnað eru óraunhæfar og standast ekki. Ekki síður að oft taka menn meðvitaðar ákvarðanir um að ráðast í verkefni, enda þótt ekki hafi verið horft til enda varðandi fjármögun þeirra. Til eru þekkt dæmi um að stjórnmálamenn réttlæti gangsetningu verkefna á grundvelli forsendna sem eru í besta falli hæpnar eða jafnvel hreinn uppspuni. Rothengatter hefur á seinni árum lagt mikla áherslu á að skoða risaverkefni sem hafa farið út af sporinu. Hann hefur deilt þeirri reynslu á fræðilegum vettvangi og með stjórnvöldum. Í erindi sínu mun hann meðal annars fjalla um hvernig nýsköpun og tæknilegar framfarir geta stuðlað að betri árangri í undirbúningi og framkvæmd risaverkefna.

Dr. Hans Georg Gemünden ætlar að segja frá heimsþekktu dæmi um verkefni sem ekki gekk vel, sumsé hinum nýja alþjóðaflugvelli í Berlín sem kenndur er við Willy Brandt fyrrum kanslara. Völlurinn átti að komast í notkun 2011 en var ekki opnaður fyrr en 2020. Þessar gríðarlegu tafir leiddu til umtalsverðs aukakostnaðar og um tíma virtist óvíst að völlurinn kæmist yfirleitt í notkun. Dr. Gemünden hefur rýnt þetta verkefni ásamt rannsóknarteymi sínu og í ljós hefur komið að ákaflega margt fór þar úrskeiðis. Teknar voru margar rangar ákvarðanir og vanhöld voru á því að rétt væri staðið að undirbúningi og framkvæmd. 

Það er mikill fengur að fá að þessa frábæru fræðimenn og fyrirlesara til Íslands til að fjalla um risaverkefni og áhættu, á tímum þegar íslensk þjóð ráðgerir gríðarlegar fjárfestingar í risastórum verkefnum. Til þess eru vítin að varast þau. Hér með er skorað á alla áhugamenn um verkefni, ekki síst alla þá sem eiga aðkomu að stórum verkefnum á Íslandi á komandi árum, að nýta tækifærið og mæta á IMaR ráðstefnuna.

Pistillinn birtist á Kjarnanum 19. september 2022.

0 comments on “Risaverkefni og áhætta

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: