Hugtakið “megaproject” eða risaverkefni er notað um verkefni sem eru svo kostnaðarsöm að fjárhagslegt umfang þeirra gerir útslag í þjóðhagsstærðum. Slík verkefni tengjast gjarnan uppbyggingu samfélagsinnviða. Sem dæmi má nefna gerð flugvalla, langra jarðgangna og flókinna samgöngumannvirkja. Verkefni af þessu tagi eru þá oft á fororði ríkisvaldsins og/eða sveitarstjórna. Þau teljast mikilvæg fyrir samfélagið til að það megi þróast, til að tryggja þegnunum bestu mögulegu þjónustu, auka skilvirkni og hagkvæmni og búa samfélagið undir framtíðina. Hér er um að ræða afar dýr verkefni og fjárhagsleg áhætta getur verið umtalsverð. Þau eru jafnan flókin og margslungin, margir hagsmunaaðilar tengjast þeim, þau fela í sér flókna samningagerð, samspil margra verktaka, verkkaupa og stofnana, framkvæmdatími getur verið langur og á meðan á þeim stendur geta þau haft veruleg áhrif á daglegt líf borgaranna. Nærtækt dæmi hér eru framkvæmdir við nýjan Landspítala við Hringbraut.

Í öllum verkefnum þarf að vanda til undirbúnings og eftirfylgni, en í risaverkefnum er þetta sérstaklega brýnt. Fagleg verkefnastjórnun er lykilatriði, frá stefnumótun og ákvarðanatöku og allt í gegnum undirbúning, hönnun, framkvæmd og gangsetningu á rekstri þeirra mannvirkja sem verkefnin skila. Rannsóknir sýna að risaverkefni eru erfið og snúin og mikil hætta er á að þau lendi út af sporinu. Mörg dæmi eru til um þetta og viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á risaverkefnum og áhættum og áskorunum sem þeim fylgja. En þrátt fyrir áhættuna er nauðsynlegt að ráðast í risaverkefni til að stíga megi nauðsynleg skref inn í framtíðina. Nú um stundir er þetta mikilvægt sem aldrei fyrr þegar þjóðir heims setja sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Umræða um sjálfbærni og hringrásarhagkerfi tengist þessu og stórar breytingar eru að verða á lífsháttum allra jarðarbúa. Ísland er hér ekki undanskilið og margt mun breytast hér á komandi árum. Um áratugaskeið hefur það tíðkast á Íslandi að urða úrgang. Við höfum talið okkur trú um að sú leið sé ódýrust og einföldust, en þessi sjónarmið heyra sögunni til, urðunarstaðnum í Álfsnesi verður brátt lokað og flestallt sem tengist úrgangsmálum er í hröðu umbreytingaferli. Á höfuðborgarsvæðinu eru stigin stór skref með uppbyggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi þar sem lífrænum úrgangi er umbreytt í moltu og metangas. Betur má ef duga skal og enn er óvíst hvernig ráðstafa skal tugþúsundum tonna af brennanlegum úrgangi sem hingað til hefur verið urðaður í Álfsnesi. Og þá er ég einmitt kominn að meginviðfangsefni þessa pistils, því mikilvæga verkefni að koma upp úrgangsorkustöð af fullkomnustu gerð sem býr til raf- og varmaorku úr brennanlegum úrgangi sem til fellur á Íslandi.
Miklar kröfur eru gerðar í umhverfismálum þar sem slíkar stöðvar eru reknar og tæknibúnaður þeirra er dýr. Augljóst virðist að kröfur í umhverfismálum munu aukast á komandi árum, til dæmis er fyrirsjáanlegt að innan fárra ára verði gerðar kröfur um að kolefni verði fangað í allri úrgangsbrennslu. Á Íslandi búa færri en fjögur hundruð þúsund manns. Reiknað hefur verið út að afkastageta stöðvar sem þjónustað getur allt Ísland er af stærðargráðunni hundrað þúsund tonn á ári. Slík stöð er lítil í alþjóðlegu samhengi, til samanburðar má nefna brennslustöð á Amager í Kaupmannahöfn sem afkastar 650.000 tonnum á ári og aðra í miðri Vínarborg sem afkastar 250.000 tonnum á ári. Lítil úrgangsorkustöð á Íslandi verður dýr í uppbyggingu og rekstri, en það að byggja slíka stöð er samt mun vænlegri kostur en að treysta á útflutning á þessum efnisstraumi og búa við þá áhættu, óvissu og háan kostnað sem útflutningi fylgir. Sveitarfélögin bera ábyrgð á úrgangsmálum en þau eru mörg og flest þeirra eru lítil. Til að við getum nýtt okkur bestu tæknilausnir í úrgangsmálum verður að hugsa heildrænt, taka höndum saman og leysa úr málum á vettvangi þjóðar frekar heldur en út frá afmörkuðum sjónarhornum minni sveitarfélaga.

Við erum brennd af því á Íslandi að byggja og reka litlar brennslustöðvar fyrir úrgang. Slíkar stöðvar voru settar upp á nokkrum stöðum fyrir fáeinum áratugum. Þeim var öllum lokað þar sem útilokað reyndist að uppfylla alþjóðlegar kröfur í umhverfismálum og kostnaður við rekstur var hár. Nú reynir á leiðandi forystu ríkisvaldsins og samtaka sveitarfélaga. Sem þjóð eigum við ekki aðra betri kosti en að ráðast í eitt metnaðarfullt verkefni til að við getum uppfyllt alþjóðlegar kröfur, lágmarkað kostnað og borið höfuðið hátt í samfélagi þjóðanna. Um leið er nauðsynlegt að koma á jöfnunarkerfi af einhverju tagi til að landsmenn allir sitji við sama borð hvað varðar kostnað við brennslu, óháð því hvort þeir búa í afskekktum héruðum eða á þéttbýlissvæðum.
Í upphafi þessa pistils var rætt um risaverkefni. Ný hátækniúrgangsorkustöð á Íslandi er ekki risaverkefni í þeim skilningi, en engu að síður er hún stórt, flókið og ótrúlega mikilvægt verkefni fyrir íslenska þjóð. Ráðstefnan IMaR (www.imar.is) sem fer fram þann 20. október í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Verkfræðingafélagsins fjallar um risaverkefni, áhættu og nýsköpun. Allt þetta kemur heim og saman í umræðu um hátækni úrgangsorkustöð og alþjóðlegir sérfræðingar í risaverkefnum munu stíga á stokk á ráðstefnunni og fræða okkur um hvað við þurfum að varast og hvernig við getum nýtt okkur reynslu annarra þjóða til að standa vel að okkar risaverkefnum. Við megum nefnilega ekki vera smeyk við að ráðast í umfangsmikil framfaraverkefni – stundum þarf að hugsa stórt.
Pistillinn birtist í Kjarnanum 9. október 2022.
Pingback: Rómantísk sunnudagsferð til að skoða Spittelau sorporkustöðina – Helgi Thor Ingason