Heimsókn MPM námsins til Isavia á Keflavíkurflugvelli

Ég má til með að greina í fáeinum orðum frá frábærri heimsókn til Keflavíkur til að kynnast starfsemi Isavia og fræðast sérstaklega um það hvernig staðið er að hinum viðamiklu framkvæmdum sem þar standa yfir.

Síðdegis þann 11. nóvember settist þorri nemenda í MPM náminu upp í langferðabíl sem flutti hópinn vestur á Keflavíkurflugvöll. Á móti okkur tók Sveinbjörn Jónsson sem hafði veg og vanda af undirbúningi heimsóknarinnar. Sveinbjörn er raunar í kennaraliði MPM námsins en hann lauk sjálfur náminu fyrir allmörgum árum. Sveinbjörn tilheyrir deild sem nefnist “Programme controls” og annast eftirlit með stórum verkefnum og verkefnastofnum á framkvæmdatíma þeirra á flugvellinum. En Sveinbjörn var ekki einn um að taka á móti hópnum, með honum voru fimm starfsmenn Isavia sem öll eiga það sameiginlegt að hafa lokið MPM náminu. Við komum nánar að þeim í niðurlagi þessa pistils!

Heimsóknin hófst á kynningu á starfsemi Isavia og hinum umfangsmiklu framkvæmdum sem þar standa yfir. Isavia er stórt fyrirtæki þar sem starfa fleiri en 1100 manns, en þar er haldið utan um 13 áætlanaflugvelli á Íslandi þar sem 2,2 milljónir farþega fóru um árið 2021. Fjöldi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll er að að aukast jafnt og þétt eftir heimsfaraldurinn, en hámarkinu var náð 2018 þegar hartnær 9,5 milljónir farþega áttu þar viðkomu. Allir sem leið eiga um flugvöllinn sjá með eigin augum að þar er mikið að gerast, ný 20.000 fm viðbygging verður opnuð seint á næsta ári og önnur viðbygging, helmingi stærri, verður tekin í notkun um mitt ár 2028. Loks er verið að leggja nýjar akbrautir fyrir flugvélar og byggja upp flugvallarstæði sem spanna alls 3.600 fm og verða tilbúin um mitt næsta ár.

Umfang þessara verkefna er mikið, hvort sem horft er á flatarmál eða fjárhagsramma. Flækjustigið er mikið strax þegar horft er á verkefnin aðskilin. Það flækir svo málið meira að verkefnin tengjast öll innbyrðis og þetta kallar á mikið stjórnunarlegt inngrip sérfræðinga Isavia sem samræma þessi verkefni. Og til að auka flækjustigið enn frekar þá eru verkefnin framkvæmd á flugvelli sem er í fullum rekstri og sem allra minnst röskun má verða á starfsemi flugvallarins. Hér skiptir því öllu máli að gera áætlanir um tíma og kostnað, fylgja vel eftir framkvæmd verkefnanna, miðla upplýsingum með skilvirkum hætti og vera fljót að bregðast við ef forsendur breytast og eitthvað virðist stefna í aðra átt en áætlanir gerðu ráð fyrir. Vaskur hópur starfsmanna Isavia sér um þetta og nýtur aðstoðar færustu sérfræðinga Mace group, sem er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í stjórnun stórra og flókinna verkefna.

Skoðunarferð um flugvallarsvæðið setti allt ofangreint í samhengi. Sem farþegi á Keflavíkurflugvelli fær maður á tilfinninguna að þar eru töluverðar framkvæmdir í gangi en enn tilkomumeira er að ganga um framkvæmdasvæðið og fá útskýringar þeirra sem best þekkja til. Mér þótti auðvitað mjög forvitnilegt að fræðast um þessi risavöxnu umsvif á Keflavíkurflugvelli og það er gott að hafa þá tilfinningu að þarna sé vel haldið utan um hagsmuni almennings! 

Ekki síður hlýnaði mér um hjartarætur að sjá svo marga útskrifaða MPM í hópi starfsmanna Isavia og þau tóku öll hlýlega á móti okkur og sögðu okkur frá því sem þau eru að fást við og hvernig MPM námið nýtist þeim í starfi. Þetta voru þau Hrund Ottósdóttir í Programme Controls á framkvæmdaverkefnum hjá Flugvallarþróun og uppbyggingu. Ásta Lára Jónsdóttir, teymisstjóri verkefnahúss hjá Stafrænni þróun og upplýsingatækni. Snorri Jónsson, tæknilegur verkefnastjóri hjá Stafrænni þróun og upplýsingatækni. Kolbrún Arnardóttir, verkefnastjóri hjá Þjónustu og samhæfingu og Gunnlaugur Bjarki Snædal. verkefnastjóri hjá Stefnumótun og sjálfbærni.

Ég þakka Isavia fyrir frábæra heimsókn og höfðinglegar móttökur!

0 comments on “Heimsókn MPM námsins til Isavia á Keflavíkurflugvelli

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: