Hjartað það er hrímað

Á aðfangadegi jóla árið 2022 velti ég því fyrir mér hvað Sigurður Bjóla átti við þegar hann skrifaði Nútíminn er trunta.

Kannski var hann að tala um það hve ógnarhratt tíminn líður? Mér finnst einmitt eins og það hafi verið í gær sem ég sat á aðfangadegi og velti vöngum –  á þessum einstöku mínútum og klukkustundum á aðfangadegi, rétt áður en hátíðleikinn yfirtekur allt og jólin ganga í garð. Þetta er tíminn þegar öllu vafstri er lokið, það er of seint að sendast eitthvað út í búðir, það verður ekkert skúrað meira og skrúbbað, gjafirnar eru komnar undir tréð og jólakveðjurnar farnar út um víðan völl með hjálp alnetsins. Þetta er tíminn þegar maður hefur fátt annað að gera en að velta vöngum yfir stóru tilvistarspurningunum.

Sigurður Bjóla hélt áfram og sagði með tóman grautarhaus. Ég get svo sannarlega tengt við þessi orð því ég á bágt með að skilja þá atburði sem nú eiga sér stað í austur Evrópu, með vargöld og mannvígum. Í einfeldni minni hef ég haft trú á því að með aukinni velmegun og meiri upplýsingum geti mannkyn borið gæfu til að lifa saman í sátt og samlyndi og taka skynsamlegar ákvarðanir með allra hagsmuni að leiðarljósi. Sú virðist ekki vera raunin þegar horft er til sífelldra stríðsátaka, vanmáttar okkar í að takast á við hlýnun jarðar og fleiri aðsteðjandi vandamála. Já, hjartað það er hrímað – því heilinn gengur laus sagði skáldið. Vissulega fær maður fær kökk í hálsinn þegar maður hugsar um ástand heimsmála þessa dagana.

En ég ætla að enda þennan stutta pistil á jákvæðum nótum. Rannsóknir sýna nefnilega að heimur batnandi fer, svona þegar horft er á stóru myndina. Þetta sýndi sænski læknirinn Hans Rosling fram á í bókinni Raunvitund, sem sá góði drengur Gunnar Dofri Ólafsson þýddi yfir á íslensku. Það er ágætt að blaða í þessari bók þegar maður tárast yfir ástandi heimsmála. Þrátt fyrir allt þá erum við á réttri leið og allt mun vel fara þegar upp er staðið.

Góðar stundir og gleðileg jól!

0 comments on “Hjartað það er hrímað

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: