Mozart og Bublé

– dagbókarbrot frá rannsóknarleyfi í Vínarborg

Prufið að fara á Spotify og slá inn “Best of Mozart” í leitarglugga. Þá dettið þið inn á lagalista og þegar rýnt er í flytjendur bregður kunnuglegu nafni býsna oft fyrir. Hjarta Íslendings slær ögn hraðar að vita af þessu, en auðvitað er maður agnarsmár í þessari miklu borg sem á svo ótrúlega sögu á sviði menningar og lista, ekki síst tónlistar. Við hjónin höfum einmitt einsett okkur að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að njóta tónlistar í Vínarborg og í liðinni viku fórum við til dæmis í Hús tónlistarinnar í miðborginni. Þetta er skemmtilegt safn þar sem safngestir skoða hitt og þetta sem tengist tónum og tónlist. Eins og venjulega má ganga um og glápa úr sér augun á þetta og hitt en svo er líka notast við sýndarveruleika og safnið höfðar jafnt til fullorðinna og barna. Þarna er hægt að horfa á tónlist út frá eðlisfræði og líffræði, fræðast meðal annars um það hvernig kettir og hvalir og fleiri dýr skynja tóna, og hvernig tónlist er að uppistöðu byggð á bylgjum, fræðast um bylgjuform, tíðni, öldulengd og fleira. En mikið lifandis undur er nú samt miklu skemmtilegra að hlusta á tónlist og líka að fræðast um þá snillinga sem bjuggu í Vínarborg yfir lengri og skemmri tíma, til dæmis Mozart, Beethoven, Strauss, Schubert, Haydn og Mahler.

Hér í borg eru nokkur söfn tileinkuð sumum af þessum tónskáldum, til dæmis heimsóttum við safnið sem nefnist “Íbúð Mozart.” Þar bjó Mozart og fjölskylda um þriggja ára tímabil (1784-1787), þegar hann hafði það ansi gott, var eftirsóttur, frægur og ríkur og gat veitt sér þann munað að búa á besta stað í bænum. Mánaðarleigan þarna var víst sama upphæð og hann hafði í árslaun á meðan hann var organisti í fæðingarbæ sínum Salzburg. Mozart vildi víst njóta lífsins í botn og hann lifði hátt á þessum árum, en hann vann líka eins og skepna, í safninu las ég tilvitnun þar sem Mozart kvaðst fara á fætur um fimmleytið og ganga til náða um miðnættið. Ég læt að gamni fylgja yfirlit yfir launastigið hér í borg, á þessum velmegunartíma Mozarts. Ég veit ekki hvort þetta hjálpar til í harðvítugum kjaradeilum á Íslandi um þessar mundir.

Við fórum á kvöldtónleika í kirkju heilagrar Önnu sem er lítil en falleg kirkja í miðborginni. Vissulega er þetta nokkur túristagildra, en alveg gaman samt að hlusta á verk eftir þá Mozart og Beethoven í flutningi fjögurra manna strengjasveitar. Það var fullt hús á laugardagskvöldi, trúlega um 250 manns mætt að hlusta, og ég heyrði fólkið í kringum mig tala ýmsum tungum en engan heyrði ég tala þýsku. Enginn sérfræðingur er ég í þeim Mozart og Beethoven og þessi verk man ég ekki eftir að hafa heyrt áður. Mozart kom á undan, “Frühlingsquartett” í fjórum hlutum og þetta var leikandi létt og áheyrilegt. Það þyngdist aðeins stemningin þegar röðin kom að “Rasumowski” eftir Beethoven en þriðji og síðasta síðasti hlutinn “Menuetto grazioso” var eins og ein samfelld rússíbanareið frá upphafi til enda og sjaldan hef ég heyrt jafn margar nótur spilaðar á jafn stuttum tíma, í óaðfinnanlegum flutningi Lerchenfeld Quartett.

Hér í borg er einnig boðið upp á annars konar tónlist og Vínarborg er viðkomustaður heimsfrægra tónlistamanna, fulltrúa allra mögulegra tónlistarstefna. Seint á síðasta ári fengum við veður af því að einn af eftirlætis söngvurum okkar hjóna ætlaði að halda tónleika í Vínarborg. Við biðjum ekki boðanna heldur keyptum tvo miða á tónleika Michael Bublé þann 7. febrúar. Við vorum ekki svikinn af þeim viðburði, þar sem sextán þúsund manns mættu í Wiener Stadthalle til að sjá þennan kanadíska ljúfling flytja sín frægustu lög með hrynsveit, stórsveit og strengjasveit. Okkur fannst þetta hreint út sagt frábær upplifun.

Nú ætla ég ekki að bera þá Mozart og Bublé saman. Mozart var ótrúlegur snillingur og gríðarlega afkastamikið tónskáld en tónlist hans þótti víst framúrstefnuleg og margt af því sem hann skrifaði varð ekki vinsælt fyrr en eftir að hann féll frá þó hann hafi vissulega átt hittara, til dæmis brúðkaup Fígarós.

Bublé myndi nú enginn kalla tónskáld þó hann hafi víst samið einhverja af sínum frægari hitturum. Hann er klassískur á vissan hátt, fer troðnar slóðir Sinatra og Tormé og fleiri slíkra “krúnera”, en hefur náð þeim árangri að koma slíkri tónlist á kortið hjá mörgum og er vinsæll um allan heim.

Við munum ábyggilega nota tækifærið í Vínarborg og sækja fleiri tónleika, bæði klassíska tónleika – af þeim er mikið framboð – en ekki síður sækja tónleika þekktra alþjóðlegra listamanna af léttara tagi sem hingað leggja leið sína í vor.

0 comments on “Mozart og Bublé

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: