Rómantísk sunnudagsferð til að skoða Spittelau sorporkustöðina

– dagbókarbrot frá rannsóknaleyfi í Vínarborg

Við hjónin erum búin að koma okkur ágætlega fyrir í 3. hverfi í Vínarborg og líður bara vel. Allt við hendina, ég er hálftíma á háskólann ef ég geng rösklega. Ég er eitthvað fljótari með hinum frábæru almenningssamgöngum í Vín, en það munar ekki miklu. Þetta er notaleg borg, vinaleg og hlýleg – enda þótt hér sé hiti rétt yfir frostmarki.

Áhyggjur mínar af kulda reyndust ástæðulausar. Ég þarf ekki að dúða mig í ullarföt og norpa með húfu og vettlinga undir teppum og sængum til að halda á mér hita í litlu íbúðinni okkar í 3. hverfi. Það er heitt og gott í íbúðinni og engin merki höfum við séð hér um neina orkukreppu.

Hundertwasser village

Við erum búin að ganga heilmikið um, það tekur bara hálftíma að labba upp á Karlsplatz og Stefansplatz. Maður verður fljótt leiður slíkum túristagildrum og fer þá að beina sjónum að ýmsu öðru sem er mun skemmtilegra hér í borg. Það er að vakna hjá mér töluverður áhugi á arkítektúr, og fegurð og notagildi mannvirkja. Við fórum til dæmis í vikunni og skoðuðum Hundertwasser village, húsaþyrpingu sem var endurgerð samkvæmt hugmyndum listamannsins Friedensreich Hundertwasser. Þar er áherslan á að mannvirkin séu í takt við náttúruna og fólkið og vissulega er eitthvað hlýlegt við litadýrðina og bugðótt formin sem einkenna þessa húsaþyrpingu.

Spittelau sorporkustöðin

Mér fannst því alveg tilvalið að fagna sunnudeginum og skoða annað meistarastykki Hunderwasser, nefnilega Spittelau sorporkustöðina. Núverandi útlit hennar er hugverk Hunderwasser, frá svipuðum tíma og hann hannaði fyrrnefnda húsaþyrpingu. Spittelau er meðalstór sorporkustöð í hjarta Vínarborgar. Þar er brennt um 250.000 tonnum af sorpi á ári hverju og stöðin sér 50.000 manns fyrir rafmagni og heitu vatni. Við hjónin gláptum á þetta stórfenglega mannvirki og tókum myndir í gríð og erg, rétt eins og nokkrir túristar sem þarna áttu viðkomu á sama tíma og héldu kannski að þeir væru að taka mynd af tívolíi.

Ég er sérstakur áhugamaður um sorporkustöðvar og skrifaði bloggpistil síðasta haust þar sem Spittelau bar á góma. Í hinum ágæta fréttaskýringarþætti Kveik á RUV fyrir skemmstu var vikið að þörfinni fyrir sorporkustöð á Íslandi. Ég hygg að allir viti að slíka stöð verður að reisa, því auðvitað viljum við taka ábyrgð á okkar eigin sorpi. Draga sem mest úr tilurð þess en ráðstafa því sem til verður með umhverfisvænum hætti. Vandanum við að hefja þetta verkefni verður einna best lýst með tilvitnun í tímamótaverkið Litlu gulu hænuna. Ríkið og sveitarfélögin keppast við að segja “ekki ég” – því það mun vissulega taka í að ráðast í verkefnið, áætlaður kostnaður er á bilinu 20 – 35 milljarðar króna.

Naumhyggja vs. fegurðarhyggja?

Ég vona að þegar ákvörðun verður loks tekin um að ráðast í verkefnið verði haldin hönnunarsamkeppni og metnaður verði lagður í að mannvirkið verði fallegt, falli vel að umhverfinu, eða skeri sig úr umhverfinu með glæsilegum hætti. Á leiðinni heim úr gönguferð dagsins rakst ég einmitt á áþreifanlegan vitnisburð um átök naumhyggju og fegurðarhyggju í arkitektúr, þegar ég virti fyrir mér samfelldan vegg af gömlum húsum hér í miðborginni. Ég læt duga að sýna ljósmynd máli mínu til stuðnings og vona að sá sem ber ábyrgð á naumhyggjunni hafi verið settur í eitthvað annað en að hanna hús.

Allt annars fínt að frétta úr Vínarborg og ég skrifa vafalaust annan pistil, þegar ég hef frá einhverju merkilegu að segja!

1 comment on “Rómantísk sunnudagsferð til að skoða Spittelau sorporkustöðina

  1. Haraldur Flosi Tryggvason Klein

    Fegurðin liggur víða. Verður gaman að fylgjast með hvort við hér heima berum gæfu til að láta okkar mannvirki vera sérstaklega útlitshannað þegar þar að kemur.

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: